Breska glamúrfyrirsætan Katie Price hefur nú fastráðið dagsetningu á brúðkaupsdag hennar og tilvonandi eiginmannsins, Carls Woods. Parið ætlaði að játast hvort öðru á síðasta ári en ófarir Price stóðu í vegi fyrir því að stóri dagurinn gæti orðið að veruleika þegar hún hlaut skilorðsbundinn dóm fyrir ölvunarakstur.
Fyrr í vikunni uppljóstraði Price á Instagram að brúðkaupsdagurinn væri nú negldur í stein. Það staðfesti hún með því að segjast hafa bókað tíma í brúðarförðun hjá Fern Howe-Shepherd sem er þekktur förðunarfræðingur í London. Sagðist Price ekki ætla að draga úr glamúrnum á stóra deginum. Fréttamiðillinn The Sun greindi frá.
„22 er happatalan mín,“ sagði Price og gaf aðdáendum sínum færi á að giska á rétta dagsetningu sem leynd hvílir þó enn yfir.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Price gengur í það heilaga en hún á þrjú hjónabönd að baki.