Victor Guðmundsson, „Doctor Victor“, hefur svipt hulunni af laginu sem hann samdi fyrir Vetrarólympíuleikana, ásamt þremur öðrum listamönnum. Lagið heitir Embrace, að umfaðma, og táknar samstöðuna sem Ólympíuleikar standa fyrir.
Myndbandið við lagið er tekið upp í heimalöndum viðkomandi listamanna sem koma frá Íslandi, Mongólíu, Ítalíu og Kína. Má líkja laginu við boðhlaup þar sem listamennirnir skiptast á að bera keflið. Það má sjá hér fyrir neðan. Og í kínverskri útgáfu hér.
En sjónvarpsstöðin China International Television Network valdi fjórmenningana til að semja lag fyrir leikana, sem hefjast 4. febrúar næstkomandi í Peking.
Spilaður á 450 útvarpsstöðvum
Runólfur Oddsson, frændi Victors, hafði milligöngu um þátttöku hins síðarnefnda í þessu samstarfi.
„Árið 2020 kynnti ég einum þekktasta útvarpsmanni Kína tónsmíðar Victors. Úr varð að lag hans var spilað á útvarpsstöðinni China Radio International og í framhaldi af því á yfir 450 útvarpsstöðvum um heim allan. Lagið sló í gegn,“ sagði Runólfur í samtali við mbl.is um áramótin.