Sveitasöngkonan og leikkonan Jana Kramer er komin með kærasta rúmum átta mánuðum eftir að hún sótti um skilnað við eiginmann sinn Mike Caussin. Kramer og Caussin höfðu verið gift tæp sex ár, en á þeim tíma hafði hann haldið fram hjá henni nokkrum sinnum.
Nýji kærastinn er einkaþjálfarinn Ian Schinelli en þau hafa bæði opinberað sambandið á Instagram. Í færslu sinni lýsir Kramer því hversu mikils hún kann að meta sambandið við Schinelli.
„Það er góð tilfinning að finna hamingju á meðan maður er enn að jafna sig. Að finna einhvern sem lítur ekki á örin þín sem áskorun eða vandamál, heldur hjálpar þér að búa um þau og stendur með þér,“ skrifaði Kramer.
Kramer og Caussin eiga tvö börn saman og fara með sameiginlegt forræði. Schinelli á eina dóttur úr fyrra sambandi.