Leikarahjónin Jason Momoa og Lisa Bonet greindu frá því í nótt að þau væru að skilja. Hjónin kynntust árið 2005 en giftu sig ekki fyrr en árið 2017. Hjónin eru samstiga þegar kemur að skilnaðinum.
„Við deilum með ykkur fréttum af fjölskyldunni. Við erum að skilja sem hjón. Við deilum þessu ekki vegna þess að okkur finnist þetta vera fréttaefni heldur vegna þess að við viljum halda áfram með líf okkar með reisn og af hreinskilni,“ sögðu hjónin í tilkynningu á Instagram og sögðust halda áfram að elska hvort annað.
Tólf ár eru á milli hjónanna en Momoa er 42 ára og Bonet er 54 ára. Þau kynntust í gegnum sameiginlega vini á djassklúbbi árið 2005. Saman eiga þau tvö börn fædd árið 2007 og 2008.