Söngkonan Britney Spears er síður en svo ánægð með viðtal sem systir hennar Jamie Lynn Spears fór í á dögunum. Britney segir systur sína hafa fengið allt upp í hendurnar á meðan hún þurfti að semja tónlistina sína sjálf og vinna fyrir sínum eigin frama.
Britney deildi hugleiðingum sínum um viðtal Jamie Lynn í langri færslu á Twitter í gær og tók fram að hún hefði verið með hita þegar hún horfði á viðtalð.
„Hún var aldrei í kringum mig fyrir 15 árum, af hverju eru þau að tala um það, nema vegna þess að hún vill selja bók á minn kostnað?“ skrifaði Britney.
Jamie Lynn var í viðtali við Good Morning America fyrr í vikunni. Þar ræddi hún að stórum hluta um hvernig alkóhólismi föður þeirra, Jamie Spears, hafi haft áhrif á æskuár systranna. Fór hún í viðtal vegna útgáfu sjálfsævisögu sinnar, Things I Should Have Said.
Britney gagnrýndi einnig að systir hennar hefði endurblandað eitt laga hennar fyrir Disney tónlistarverðlaunin árið 2017.
„Ég veit það hljómar kjánalega í heyrum flestra, en ég samdi flest lögin mín og systir mín var barnið. Hún þurfti aldrei að vinna fyrir neinu. Hún fékk allt upp í hendurnar,“ skrifaði Britney.
— Britney Spears (@britneyspears) January 13, 2022