Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri á Seltjarnarnesi hefur fylgst með syni sínum, handboltamanninum Viggó Kristjánssyni, úr stúkunni í Búdapest þar sem íslenska landsliðið hefur farið á kostum á EM í handbolta. Ásgerður og eiginmaður hennar, Kristján Guðlaugsson, sáu alla leikina þrjá í undankeppninni en eru á heimleið.
„Ég er á leiðinni heim því miður,“ segir Ásgerður þegar blaðamaður náði í Ásgerði morguninn eftir Ungverjaleikinn. „Ef við komumst í úrslitin þá ætla allir hérna á hótelinu að fara aftur út, ef það verður boðið upp á það.“
Það stóð alltaf til hjá Ásgerði og fjölskyldu að sjá alla leikina í riðlakeppninni. „Stemningin hefur alveg verið frábær. Maður hefur fundið andann í liðinu, stemningin hefur vaxið með hverjum leik. Þessi fjöldi Ungverja í gær hafði auðsjáanlega engin áhrif á þá. Það var sungið stanslaust fyrir aftan Bjögga í markinu í fyrri hálfleik. Hann stóð sig eins og hetja eins og allir strákarnir af því að auðvitað er þetta mikil pressa. Það var alveg sama hvert þú horfðir; það voru bara Ungverjar. Svo vorum við þarna á tveimur stöðum. Við reyndum að kalla eins mikið og við gátum en það heyrðist ekki mikið miðað við að þarna voru 19 þúsund Ungverjar,“ segir Ásgerður um leikinn gegn Ungverjum.
Ásgerður finnur mun á andanum í liðinu núna og áður. „Mér finnst sjálfstraustið mikið núna. Þeir ætla sér eins langt og þeir geta. Guðmundur þjálfari er náttúrlega kominn með reynsluna – búinn að taka silfur á Ólympíuleikum og síðan gullið – þannig að við gætum ekki verið með betri þjálfara.“
Næsti leikur er á morgun gegn Dönum. „Ég trúi því að við vinnum Dani. Við munum koma þeim á óvart. Við munum landa sigri þegar tíu mínútur eru eftir af leiknum, þá verður þetta komið,“ segir Ásgerður sigurviss.
Hingað til hefur gengið vel í ferðinni þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn. „Það voru eiginlega allir með grímu í höllinni. Við erum á stóru og miklu hóteli þannig að við erum aldrei nálægt neinum nema Íslendingum. Allir passa sig og spritta sig í tíma og ótíma. Við tókum hraðpróf í morgun og við erum neikvæð. Við förum allavega í flugvélina neikvæð,“ segir Ásgerður.
Fjölskyldan er dugleg að styðja við Viggó. Frænka Viggós og nafna ömmu sinnar, Ásgerður Ingveldardóttir, er á sínu öðru móti þótt hún sé ekki há í loftinu. Sú stutta fór fyrst út þegar Viggó var á sínu fyrsta stórmóti í Svíþjóð fyrir tveimur árum. Viggó og kona hans eiga von á öðru barni sínu og voru hún og frumburður þeirra eftir heima í Stuttgart þar sem Viggó spilar.
Handbolti er eitt stærsta áhugamál fjölskyldunnar. Ásgerður telur það eiga stóran þátt í því hvað Viggó hefur náð langt í íþróttinni. Hún og eiginmaður hennar eiga reyndar handboltaferil að baki.
„Ég er uppalin í Gróttu. Ég var markvörður í gamla daga. Hann hefur þetta frá okkur báðum,“ segir Ásgerður um hvaðan Viggó fær áhugann en í ljós kemur að Kristján faðir Viggós var líka í handbolta. „Við kynnumst í Versló en hann kemur strax í Gróttu þegar hann kynnist mér, við erum það ung,“ segir Ásgerður sem var einnig gjaldkeri HSÍ á árunum 1995 til 2005. Á þeim árum fylgdi hún líka íslenska landsliðinu á stórmót.
„Svo spilaði eldri bróðir hans með unglingalandsliðinu og spilaði níu ár í Danmörku,“ segir Ásgerður stolt móðir og segir Viggó hafa fylgst vel með bróður sínum í handboltanum.