Betur skýrist í dag hversu marga miða Handknattleikssamband Íslands, HSÍ, fær á leiki Íslands á Evrópumeistaramótinu í handbolta sem fer nú fram í Búdapest í Ungverjalandi. Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, er staddur úti í Ungverjalandi og segir sambandið hafa fengið töluverðan fjölda fyrirspurna um miða á leiki liðsins. Það er því ljóst að töluverður fjöldi mun leggja leið sína austur til Ungverjalands á næstu dögum.
Ísland tryggði sér farmiða inn í milliriðil á mótinu í gærkvöldi með sigri á liði Ungverja. Nú eru fjórir leikir framundan næstu vikuna en sá fyrsti fer fram annað kvöld gegn liði Danmerkur.
„Þetta er bara ánægjulegt og vonandi getum við sinnt öllum sem vilja koma á leikina,“ segir Róbert.
Miðarnir á leikina fara í sölu þegar liggur fyrir hversu marga miða sambandið fær. Heimsferðir hafa nú þegar tryggt sér 186 miða á leikinn gegn Dönum á morgun og aðrar ferðaskrifstofur eru einnig að skipuleggja ferðir út.
„Við erum gríðarlega ánægð með frammistöðu okkar manna inni á vellinum og einnig áhorfenda. Það hefur verið frábær stemning í höllinni undanfarna daga,“ segir Róbert sem er ánægður með framlengda dvöl liðsins í Ungverjalandi og hlakkar til leikjanna framundan.