Dánarstjóri í Los Angeles í Bandaríkjunum hefur úrskurðað um dánarorsök leikarans Sidneys Poitiers. Poitier lést á heimili sínu í borginni 6. janúar síðastliðinn, 94 ára að aldri.
Poitier lést úr hjartabilun, alzheimer og krabbameini í blöðruhálskirtli. Krufning fór ekki fram né vefsýnataka til að úrskurða um dánarorsökina. Það má sjá í skýrslu dánarstjóra sem TMZ hefur undir höndum.
Poitier var einn ástsælasti leikari í Hollywood á síðustu öld. Hann leiddi réttindabaráttu svartra í kvikmyndaiðnaðinum og var fyrsti svarti karlmaðurinn til að hljóta Óskarsverðlaun.
Leikarinn greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli árið 1993, þá 66 ára að aldri, og náði sér vel af meininu eftir aðgerð. Ekki hafði komið fram opinberlega að hann glímdi við alzheimersjúkdóminn.