Tískugoðsögnin André Leon Talley er látinn 73 ára að aldri. Erlendir fjölmiðlar greina frá láti Talleys auk þess sem lát hans er staðfest á opinberri instagramsíðu hans. Talley lést á þriðjudaginn á spítala í New York en ástæða innlagnarinnar er ekki tilgreind.
Talley var lengi listrænn stjórnandi hjá Vogue og skipaði stórt hlutverk í að breyta tímaritinu á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Hann vann sig upp hjá Vogue og varð fréttastjóri og listrænn stjórnandi hjá tímaritinu. Hann var líka hægri hönd ritstjórans Önnu Wintour.
Tískugoðsögnin var vinur margra af frægustu fatahönnuðum í heimi og má þar nefna Yves Saint Laurent, Karl Lagerfeld, Palomu Picasso, Diane von Furstenberg og Manolo Blahnik.