Söngkonan Laufey Lín Jónsdóttir verður gestur í spjallþætti Jimmy Kimmel í kvöld en þar verður hún með tónlistaratriði.
Laufey skrifar á Instagram að það að vera gestur hjá Kimmel sé það klikkaðasta sem hafi komið fyrir hana og að draumur hennar sé að rætast.
Ásamt Laufeyju verða leikararnir Jason Bateman og Ashley Park gestir Kimmel. Bateman er þekktur fyrir hlutverk sín í Ozark og Arrested Developement og Park er þekktust fyrir að fara með hlutverk Mindy Chen í þáttunum Emily in Paris.
Laufey lauk námi við Berklee-tónlistarháskólann í Boston síðasta vor og þrátt fyrir ungan aldur hefur hún afrekað ýmislegt og gaf til að mynda út lagið „Let me break your heart again“ í samstarfi við Fílharmóníusveit Lundúna í ágúst.
Laufey ræddi við mbl.is í tilefni af útgáfu lagsins og sagðist alltaf hafa ætlað sér að lifa og hrærast í heimi tónlistarinnar, en ferillinn tók óvænta stefnubreytingu þegar hún hlaut fullan styrk í Berklee-skólann í Boston. „Mér fannst þetta ansi ólíkleg leið fyrir mig að fara, það er í djass- og popptónlist,“ segir Laufey. En í Berklee lærði hún að eigin sögn allt milli himins og jarðar um heim tónlistarinnar, auk söngs.