Gríndramaþættirnir Venjulegt fólk fjalla um Völu og Júlíönnu sem hafa verið vinkonur frá því í menntaskóla. Fyrstu þrjár þáttaraðirnar nutu gríðarlegra vinsælda í Sjónvarpi Símans Premium þar sem þær slógu hvert áhorfsmetið á eftir öðru og nú er von á fjórðu þáttaröðinni, aðdáendum þáttanna eflaust til mikillar gleði.
Í fjórðu þáttaröðinni sjáum við hvernig eilífðarunglingurinn Vala finnur sig skyndilega með ungabarn á arminum og hring á fingri meðan Júlíana þarf að aðlaga lífið að nýjum veruleika hjá þeim Tomma í kjölfar gjaldþrots. Eins og áður taka þættirnir fyrir venjulega hluti úr daglegu lífi, þannig eiga áhorfendur auðvelt með að setja sig í spor sögupersónanna og hlæja og gráta með þeim í gegnum oft furðulegar leiðir þeirra til að leysa málin
Vala Kristín Eiríksdóttir, Júlíana Sara Gunnarsdóttir, Hilmar Guðjónsson og Arnmundur Ernst Backman fara með aðalhlutverkin. Vala og Júlíana eru handritshöfundar ásamt Dóra DNA og Fannari Sveinssyni en Fannar leikstýrir einnig þáttunum eins og fyrri þáttaröðum.
Í síðustu þáttaröð bættust við leikarahópinn þau Halldóra Geirharðsdóttir sem móðir Völu og Pétur Jóhann Sigfússon sem bróðir Tomma, þau slógu í gegn og það verður gaman að sjá hvernig persónur þeirra þróast enn frekar í þessari þáttaröð.
Í þessari klippu segir mamma Völu frá því hvernig hún er að drepast í bakinu eftir allar samfarirnar við unga ástmanninn.
Öll þáttaröðin af Venjulegu fólki 4 kemur í Sjónvarp Símans Premium fimmtudaginn 27. janúar.