Breski grínistinn og Britain's Got Talent-dómarinn David Walliams hefur verið áminntur í starfi sínu sem dómari í þáttunum.
Walliams þykir hafa hegðað sér með einkennilegum hætti í áheyrnarprufunum sem nú fara fram fyrir komandi þáttaröð. Er hann sagður hafa berað sig fyrir framan áhorfendur og samstarfsmenn með því að klæða sig úr skyrtunni og leika sér í kjölfarið að geirvörtum sínum. Því næst er hann sagður hafa stungið fingri inn um klaufina á buxunum sem hann klæddist og gert sig líklegan til að afhjúpa fleira en bara geirvörturnar.
Walliams sat við hlið yfirdómarans, Simons Cowells, sem hneykslaðist á uppátækinu. Samkvæmt frétt frá Daily Mail hefur þeim áður sinnast vegna brandara sem Walliams sagði og Cowell þótti ósmekklegur.