Tónlistarmaðurinn Jón Jónsson verður kynnir í Söngvakeppninni 2022 ásamt fjölmiðlastjörnunum Björgu Magnúsdóttur og Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur. Ragnhildur Steinunn og Rúnar Freyr Gíslason greindu frá þessu í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Kynnarnir þrír hafa öll kynnt Söngvakeppnina áður.
Rúnar Freyr sagði að þau hefðu ráðfært sig við sóttvarnayfirvöld og í kjölfarið ákveðið að fresta keppninni um eina viku. Fyrsta undanúrslitakvöldið fer því fram 26. febrúar í stað 19. febrúar. „Þá væru mun meiri líkur á að við gætum haft eitthvert fólk í höllinni,“ sagði Rúnar um ákvörðunina. Úrslitakvöldið fer fram 12. mars og keppa fjögur eða fimm lög í úrslitum.
Mikið verður lagt í keppnina í ár og eru farnar óvenjulegar leiðir í auglýsingum. Sérstakur strætó keyrir um götur en hann er skreyttur að innan og utan. Söngvakeppnin verður haldin í kvikmyndaveri RVK Studios í Gufunesi að þessu sinni en ekki Háskólabíói eða Laugardalshöll eins og undanfarin ár.
Eurovision fer svo fram í Tórínó á Ítalíu í maí. Undankvöldin tvö verða 10. og 12. maí en úrslitin laugardagskvöldið 14. maí.