Enn er langt í land að Charlene prinsessa nái fullri heilsu. Þetta segja talsmenn hallarinnar í Mónakó. Hún mun því ekki sjást á opinberum vettvangi á næstunni.
„Bataferli prinsessunnar gengur vel og hún sýnir góðar framfarir,“ er sagt í tilkynningu frá höllinni. „Batinn mun þó taka fjölmargar vikur og hún mun ekki geta verið viðstödd hátíðarhöld Sainte Dévote í ár. Um leið og hún fær heilsu á ný mun hún með glöðu geði fagna á ný með íbúum Mónakó. Þangað til biðjum við áfram um að einkalíf hennar og fjölskyldu hennar sé virt.“
Síðasta ár var mjög erfitt fyrir Charlene prinsessu. Hún var föst í Suður Afríku í fleiri mánuði á meðan hún gekkst undir ýmsar aðgerðir í tanngarði og glímdi við erfiðar sýkingar í ennisholum.
Charlene sneri aftur til Mónkaó í nóvember en hefur síðan þá dvalið á heilsuhæli utan Mónakó, líklegast í Sviss. Sagði höllin að hún væri uppgefin á sál og líkama.
Margir hafa haldið því fram að hjónaband hennar og Alberts standi á brauðfótum en hann hefur neitað þeim orðrómi staðfastlega. Sagt er að fjölskyldan sé dugleg að tala saman í síma og að Albert prins hafi nokkrum sinnum heimsótt Charlene á heilsuhælið.