Kanadíska þjóðlagasöngnan Joni Mitchell hefur óskað eftir því að tónlist hennar verði fjarlægð af streymisveitunni Spotify vegna hlaðvarpsstjórnandans Joes Rogans.
Fetar hún þar með í fótspor landa síns Neil Young sem óskaði eftir því sama fyrr í vikunni.
Hún birti á vefsíðu sinni bréf frá lælknum og vísindamönnum sem hvetja Spotify til að setja reglur er varða ranga upplýsingagjöf.
Young sakaði Rogan um að veita rangar upplýsingar um Covid og sagði í framhaldinu við Spotify: „Þeir geta fengið Rogan eða Young. Ekki báða.“
Rogan hefur verið gagnrýndur fyrir að taka viðtal við sérfræðing í smitsjúkdómum sem er andvígur bóluefnum gegn Covid-19 fyrir börn.
Spotify er sagt hafa greitt 100 milljónir dollara, eða um 13 milljarða króna, fyrir réttinn á þættinum The Joe Rogan Experience árið 2020. Þátturinn er sá vinsælasti á Spotify og er sagður halaður niður næstum 200 milljón sinnum á mánuði.