Borin út af leiksýningum

„Mín leið að leikhúsinu hefur verið býsna löng og rykkjótt gegnum tíðina,“ segir Sigríður  Jónsdóttir leiklistargagnrýnandi og sérfræðingur við Leikminjasafnið þegar hún er spurð hvenær og hvernig hún hafi vitað að hún vildi gera leiklistina sem fræðigrein að ævistarfi sínu. 

„Alveg frá því ég var í framhaldsskóla hefur öll mín menntun alltaf verið samhliða leikhúsinu. Áður en ég fór í Listaháskólann var ég í masternámi í mannfræði við Háskólann í Edinborg og eyddi meira eða minna öllum mínum frístundum í leikhúsi þó ég ætti ekki tvær krónur til að skrapa saman. Áður en ég fór til Edinborgar lofaði ég sjálfri mér því að ef það væri leiksýning í London sem ég yrði að sjá þá myndi ég fara, sama hvað. Og þetta gerði ég öll árin,“ segir Sigríður og rifjar upp að hún hafi endað á því að skrifa lokaritgerðina í mannfræðináminu um sviðslistir.

Komst inn í námið sér til mikillar undrunar

„Á lokaárinu mínu, um jólin, en þá var ég búin að búa erlendis í mörg ár, þá sá ég auglýsingu um námið Fræði og framkvæmd í Listaháskólanum, sem þá var tiltölulega nýtt. Ég hugsaði með mér, loksins er komið nám á Íslandi fyrir mig. Vegna þess að ég hafði aldrei haft einhverja löngun til að verða leikari, þó ég hefði leikið í ýmsum sýningum. Ég ber óendanlega mikla virðingu fyrir fólk sem leggur leikarastarfið fyrir sig, en það var alls ekki fyrir mig,“ segir Sigríður sem sótti um námið við Listaháskólann. Fræði og framkvæmd var þá skipulagt sem þriggja ára grunnnám í leiklist sem hafði það ekki að markmiði útskrifa leikara, heldur bauð upp á blöndu af fræðilegri áherslu og verklegu nám. Námið nefnist í dag Sviðshöfundabraut. 

„Ég flaug heim til að fara í prufurnar og mér til mikillar undrunar þá komst ég inn,“ segir Sigríður og rifjar upp að hún hafi allaf haft miklu meiri áhuga á að skrifa leiktexta eða um leikhús en að leika eða leikstýra. „Ég endaði á að skrifa lokaritgerðina mína við Listaháskólanum um stjórnartíð Vigdísar Finnbogadóttir hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Það sem kom mér svo mikið á óvart var að ég var þá að skoða frumheimildir. Ég var í BA-náminu mínu að rannsaka sögu sem hafði ekki verið rannsökuð með þessum hætti áður,“ segir Sigríður og bendir á að hún hafi á þeim tíma ekki endilega séð fyrir sér að hún myndi leggja leiklistina sem fræðigrein fyrir sig, en eftir á sjái hún hvernig hún hafi sífellt verið að fikra sig nær fræðigreininni.

Allt sem gerðist á sviðinu raunverulegt 

„Ég ólst upp á Tálknafirði fram undir fermingu og af þeim sökum var leikhús ekki daglegur viðburður,“ segir Sigríður og rifjar upp að hún hafi á þeim tíma aðeins séð farandsýningar og einstaka sýningar í höfuðborginni þegar fjölskyldan átti leið í bæinn.

„Mín menningarneysla kom aðallega upp úr bókum, Ríkissjónvarpinu og vídeóleigunni. Það er í raun kraftaverk að ég skuli hafa endað í þeirri vinnu sem ég er í í dag og eyði meirihlutanum af mínum tíma í leikhúsi því alla mína bernsku var ég yfirleitt borin út af leiksýningum sökum einskærrar geðshræringar og skelfingar. Ég hafði mjög öflugt ímyndarafl sem barn og af þeim sökum varð allt sem gerðist á sviðinu raunverulegt fyrir mér. Þetta gerðist trekk í trekk alla mína barnæsku þannig að ég er ekki einu sinni viss um hvenær ég sá fyrstu leiksýninguna í fullri lengd,“ segir Sigríður og telur þó að það hafi mögulega verið uppfærsla Borgarleikhússins á Ronju ræningjadóttur 1992. 

Að sögn Sigríðar fór við 16-17 ára aldurinn að fara skipulega í leikhús og þegar hún svo fór í alþjóðlegan framhaldsskóla í Hong Kong hafi henni gefist ómetanlegt tækifæri til að sjá nýja tegund sviðlistar sem hafi orkað sterkt á hana. 

Viðtalið við Sigríði Jónsdóttur má horfa á í heild sinni í Dag­mál­um Morg­un­blaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup