Tónlistarkonan Janet Jackson er komin yfir atvikið sem átti sér stað í hálfleik Ofurskálarinnar árið 2004. Tónlistarmaðurinn Justin Timberlake greip í brjóst Jackson með þeim afleiðingum að nakið brjóst Jackson sást í beinni útsendingu.
Janet Jackson hreinsaði loftið í nýjum heimildarþáttum sem voru teknir upp fyrr á þessu ári að því fram kemur á vef People. „Í hreinskilni þá var þetta blásið upp. Og auðvitað var þetta slys sem hefði ekki átt að gerast en allir voru að leita að sökudólgi og það verður að hætta,“ sagði Jackson um atvikið.
„Ég og Justin erum mjög góðir vinir og við verðum alltaf mjög góðir vinir,“ hélt Jackson áfram. „Við töluðum saman bara fyrir nokkrum dögum. Við erum komin yfir þetta og það er kominn tími til að allir geri slíkt hið sama.“
Sala á plötum Timberlake gekk vel í kjölfar framkomu þeirra en tónlist Jackson var hins vegar fjarlægð af útvarpsstöðvum og sjónvarpsstöðvum.