Skemmtiþátturinn Það er komin Helgi í Sjónvarpi Símans heldur áfram á laugardag en hlé var gert á sýningum skömmu fyrir jól. „Það er spennandi að byrja aftur enda alltaf gaman í þessum þáttum,“ segir Hallgrímur Ólafsson, sem gengur undir nafninu Kalli selló í beinu útsendingunni. „Auk þess er gott að hafa föst verkefni á þessum síðustu og verstu tímum.“
Þátturinn hefur nánast fylgt heimsfaraldrinum, var fyrst á dagskrá sem tilraunaverkefni í mars 2020 en vakti svo mikla lukku að ákveðið var að halda áfram. Innkoma Kalla selló á sínum tíma var líka nokkurs konar tilraun, sem heppnaðist vel.
„Þetta var eiginlega slys,“ segir leikarinn. Helgi hafi ákveðið að vera í settinu með skáp, sem hann opnaði á ákveðnum tíma og lokaði svo strax aftur eftir að hafa séð hver þar væri inni. Skömmu eftir að sýningar byrjuðu á Kardimommubænum í Þjóðleikhúsinu, þar sem Hallgrímur leikur Kasper, hafi hann verið í skápnum sem slíkur. „Helgi fékk ekki að loka skápnum, því Kasper vildi ekki láta loka á nefið á sér, rauk út og byrjaði að bulla. Í kjölfarið pældum við í því hvort við gætum gert eitthvað skemmtilegt með þetta og bjuggum til Kalla selló. Þetta átti bara að vera ein innkoma sem karakter úr barnaleikriti.“
Eitt sinn, þegar Hallgrímur var krakki á Akranesi, voru eldri strákar að stríða honum. „„Hættið að stríða Halla, því hann er svo melló“, sagði elsti gaurinn og þar með var viðurnefnið komið,“ rifjar hann upp. „Nafnið Kalli selló lá því í loftinu.“ Hann hafi verið hugsaður sem þessi dæmigerði bransagaur, sem þekkir alla en enginn þekkir. Draumóramaður. „Hann hefur verið alls staðar, kann alla frasana, en það er ekki mikið á bak við það. Hann er þetta týpíska íslenska „wannabe“, en mér finnst fátt fallegra í heiminum en íslenskt „wannabe“. Það er svo mikið hjarta.“
Veirufaraldurinn hefur komið illa niður á sviðslistafólki, en Hallgrímur hefur leikið í Kardimommubænum og Rómó og Júlíu að undanförnu auk þess sem hann æfir í Án titils sem til stendur að frumsýna í vor. Hann segir að vinnan í leikhúsinu hafi nánast gengið snurðulaust fyrir sig þrátt fyrir miklar hindranir og tilfærslur á æfingum. „Ég hef haft nóg að gera en salurinn hefur aldrei verið fullur vegna fjöldatakmarkana. Venjan er að fjölskyldur komi á Kardimommubæinn, hlæi og skemmti sér, en í hálfum sal vantar alltaf þetta extra. Hins vegar er gaman að eiga Kasper á ferilskránni.“
Þrátt fyrir langan leiklistarferil má segja að Hallgrímur hafi fyrst verið á allra vörum sem Magnús Magnús Magnússon að reyna sig við víkingaklappið án árangurs í áramótaskaupinu 2016. Kalli selló í Það er komin Helgi er af sama meiði. „Ég reyni að tengja hann við það sem er í gangi í þjóðfélaginu hverju sinni og vinn svolítið með það að allt sem er neikvætt er honum að kenna. Hann kemur að öllu, þykist vita allt, en klikkar á öllu, klúðraði til dæmis talningunni í Borgarnesi með eftirminnilegum hætti.“