Mary krónprinsessa Danmerkur fagnar í dag 50 ára afmæli sínu. Mikið hefur verið um dýrðir í Danmörku í tilefni af því og hefur krónprinsessan veitt fjölmörg viðtöl. Þar tjáir hún sig um fjölskyldulífið og móðurmissirinn.
Í viðtali við Eurowoman Magazine minnist prinsessan móður sinnar sem lést árið 1997 en móðir hennar sagði henni að hún gæti aðeins verið hún sjálf. „Hún hafði algerlega á réttu að standa. Ég minnist þessara orða hennar þegar mér finnst ég vera að týna sjálfri mér. Það var mikið högg að missa móður mína svona ung að árum en með árunum hef ég lært að líta á þann stutta tíma sem við áttum saman sem gjöf. Missirinn gerir mann sterkan. Ég hefði viljað eiga meiri tíma með henni. En hún er stór hluti af mér.“
„Lífið mitt hefur einkennst af miklum breytingum, gleði og sorgum. Það eru stórir atburðir eins og það að missa móður sína, verða sjálf móðir, fara í háskóla, hitta Friðrik. Að giftast krónprinsi og verða krónprinsessa Danmerkur. Kannski verður það að verða fimmtug annar álíka stór viðburður í mínu lífi,“ segir Mary krónprinsessa og bætir við að hún óttist ekki það að verða fimmtug, henni líði eins og heilli manneskju og hafi fengið aukna innsýn í lífið. Á komandi árum ætli hún að helga sér baráttu þeirra sem eiga undir högg að sækja í lífinu.