Óskarsverðlaunahafinn Markéta Irglová, sem búið hefur hér á landi síðan árið 2012, tekur þátt í Söngvakeppninni í ár. Hún vann Óskarsverðlaunin árið 2008 fyrir lagið Falling Slowly.
Þá vekur einnig athygli að söng- og leikkonan Sólborg Guðbrandsdóttir tekur þátt í keppninni. Hún vakti mikla athygli á sínum tíma fyrir verkefnið Fávitar sem beitti sér gegn kynferðisofbeldi. Sólborg hélt úti instagramsíðu fyrir verkefnið og var með tæplega 33.000 fylgjendur.
Sólborg gengur undir listamannsnafninu Suncity. Hún keppir í Söngvakeppninni ásamt söngkonunni Sönnu.
Önnur þekkt nöfn úr íslenska tónlistarheiminum sem keppa í ár eru Haffi Haff, Reykjavíkurdætur og Stefanía Svavarsdóttir.
Lögunum úr Söngvakeppninni var lekið á síðuna euruvisionfun.com. Þar má lesa nánar um lögin sem keppa og flytjendur þeirra. Hægt er að hlusta á lögin bæði í íslenskri og enskri útgáfu.