Íslenska kvikmyndin Dýrið hlaut ekki tilnefningu til Óskarsverðlaunanna. Tilkynnt var um tilnefningarnar í dag, en Dýrið var á stuttlista Akademíunnar fyrir tilnefningarnar.
Kvikmyndirnar Flee frá Danmörku, The Worst Person in the World frá Noregi, Lunana: A Yak in the Classroom frá Bútan, The Hand of God frá Ítalíu og Drive My Car frá Japan hlutu tilnefningar í flokki alþjóðlegra kvikmynda.
Óskarsverðlaunin verða afhent hinn 27. mars næstkomandi.
Dýrið er frumraun leikstjórans Valdimars Jóhanssonar. Hún átt góðu gengi að fagna, þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Myndin sló met þegar hún varð fjölsóttasta íslenska kvikmyndin í bandarískum kvikmyndahúsum. Þá hefur hún fengið góða dóma í bæði bandarískum og breskum fjölmiðlum.
Með aðalhlutverk í dýrinu fara Noomi Rapace, Hilmir Snær Guðnason og Björn Hlynur Haraldsson.