Tónlistarfólkið Chris Martin, forsprakki hljómsveitarinnar Coldplay, og söngkonan Selena Gomez tóku höndum saman í hjartnæmu lagi sem hljómsveitin gaf frá sér í október á síðasta ári. Nýútgefið tónlistarmyndband við lagið hefur vakið athygli en þar er Martin í hlutverki elskhuga Gomez en sársaukafull sambandsslit eru yfirvofandi.
Myndbandið var frumsýnt í byrjun vikunnar og fór áhorfið yfir þrjár milljónir á innan við sólarhring. Lagið fjallar um ástir og erfiðleika og fara þau Martin og Gomez býsna vel með þá túlkun lagsins í tónlistarmyndbandinu þegar þau sleppa tökum hvort af öðru og fara hvort í sína áttina með miklum trega.
Gomez deildi skemmtilegri mynd á Instagram í kjölfar frumsýningarinnar á myndbandinu en þar má sjá þau Chris Martin saman á setti þegar tökur stóðu yfir. Ráku þau bæði út á sér tungurnar og virtust skemmta sér vel þrátt fyrir að lagið sem þau léku við sé ansi tilfinningaþrungið.
Chris Martin tilkynnti í desember á síðasta ári að líklegt væri að síðasta plata hljómsveitarinnar kæmi út árið 2025. Hann vildi þó ekki meina að þar með væru dagar sveitarinnar taldir þannig aðdáendur þeirra ættu að geta andað örlítið léttar.
„Ég get sagt ykkur það að síðasta almennilega platan okkar mun koma út árið 2025. Eftir það held ég að við munum bara túra,“ er haft eftir Martin í viðtali við Radio 2 á vegum BBC fréttastofunnar, fréttamiðillinn People greindi frá.