Bresku tónlistarverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Lundúnum í gærkvöldi. Verðlaun voru veitt í kynlausum flokkum í fyrsta skipti. Tónlistarkonan Adele var afar sigursæl en hún vann þrjú verðlaun.
Platan 30 með Adele var valin plata ársins, lagið Easy On Me var valið lag ársins og hún var valin flytjandi ársins. „Ég skil af hverju nafninu á þessum verðlaunum var breytt en ég elska að vera kona, að vera kvenkyns listamaður, ég geri það,“ sagði Adele í ræðu sinni á hátíðinni. Hún sagðist jafnframt eiga erfitt með að trúa því að píanóballaða hefði verið valið lag ársins fram yfir mörg grípandi lög.
Í fyrra sendi tónlistarmaðurinn Sam Smith ekki inn plötu sína Love Goes þar sem hann er kynsegin og passaði því hvorki inn í flokk tónlistarmanna né tónlistarkvenna. Á verðlaunahátíðinni í ár var því ákveðið að leggja áherslu á tónlistina í stað kyn fólks.
Ásamt Adele var tónlistarfólkið Dave, Ed Sheeran, Little Simz og Sam Fender tilnefnt í flokkinum flytjandi ársins. Íslandsvinurinn Ed Sheeran hlaut verðlaun sem lagahöfundur ársins.