Elísabet II Bretlandsdrottning studdist við staf á 70 ára drottningarafmæli sínu á sunnudag. Það er ekkert nýtt að drottningin notist við staf, enda 95 ára gömul, en í þetta sinn vakti stafurinn athygli. Ekki aðeins vakti það athygli að stafurinn var of hár fyrir hana, heldur einnig að hann var í eigu Filippusar hertoga af Edinborg heitins.
„Ég þekkti stafinn um leið og ég sá hann, þar sem hann var alltaf geymdur við aðalhurðina,“ sagði ævisöguritarinn Gyles Brandreth í viðtali við Telegraph. „Þetta var stafur hertogans, og það er virkilega fallegt að drottningin sé farin að nota hann.“
Drottningin notaðist við stafinn um kvöldið, en hátíðarkvöldverður var gerður að Sandringham í tilefni af drottningarafmælinu.