Tískumógúllinn Julia Haart hefur sótt um skilnað frá eiginmanni sínum, viðskiptamanninum Silvio Scaglia Haart. Raunveruleikaþættirnir My Unorthodox Life á Netflix fjalla um Juliu Haart og rekstur hennar á Elite World Group sem Scaglia átti áður en hann kynntist eiginkonu sinni.
Haart sótti um skilnaðinn á miðvikudaginn, aðeins nokkrum klukkutímum eftir að hún var rekin úr starfi sínu hjá Elite World Group að því fram kemur á vef Page Six.
Fréttir af uppsögn Haart birtust á viðskiptasíðu og um hádegi sótti hún um skilnað. „Þetta var ekki planið hennar þennan daginn. Það er allt brjálað á Elite,“ sagði heimildarmaður.
Annar heimildarmaður sagði að uppsögn Haart hafi komið henni á óvart. Hins vegar var hún ekki rétta manneskjan í starfið. „Fólk vinnur í marga áratugi til þess að verða forstjórar og hún hafði ekki gengt ábyrgðarfullu starfi þangað til hún fór að vinna fyrir La Perla.“ Lögmaður Haart sagði uppsögnina ólöglega.
Hjónin hafa verið gift í næstum því þrjú ár en nú er komið að leiðarlokum. Hjónin kynntust þegar hún var listrænn stjórnandi hjá La Perla og hann forstjóri. Hjónin gengu í hjónaband árið 2019 og tók Scaglia upp eftirnafn hennar. Julia Haart flúði úr samfélagi rétttrúnaðargyðinga í New York árið 2012 vann sig upp í tískuheiminum á mettíma eftir litla sem enga skólagöngu. Hún varð meðeigandi Elite World Group þegar þau giftu sig og tók við sem forstjóri en Elite er ein þekktasta umboðsskrifstofa í heimi.