Í Mývatnssveit standa nú yfir tökur á kvikmyndinni Northern Comfort í leikstjórn Hafsteins Gunnnars Sigurðssonar. Í kvikmyndinni leika erlendar stjörnur á borð við Timothy Spall og Lydia Leonard en einnig íslensku leikararnir Sverrir Guðnason og Björn Hlynur Haraldsson. Deadline greinir frá.
Tökurnar hófust í Mývatnssveit fyrir nokkrum dögum en svo verður tekið upp í Reykjavík áður en tökurnar færast til Bretlands og Frakklands.
Með hlutverk í myndinni fara líka Ella Rumpf, Simon Manyonda og Rob Delaney. Spall er hvað þekktastur fyrir að fara með hlutverk Peters Pettegrew í kvikmyndunum um Harry Potter en Leonard hefur farið með hlutverk í fjölda leikrita og þátta.
Samkvæmt heimildum mbl.is fara tökurnar meðal annars fram á Fosshótel Mývatn og er hótelið lokað fyrir gesti um þessar mundir.
Halldór Laxness Halldórsson og Tobias Munthe skrifa handritið ásamt Hafsteini. Kvikmyndin fjallar um fjölbreyttan hóp fólks sem á það sameiginlegt að vera flughrætt. Enda þau sem strandaglópar á norðlægum slóðum.
Í viðtali við Deadline segir Hafsteinn að myndin sé gamanmynd. „Rauði þráðurinn í sögunni er hvernig þú tekst á við hræðslu og að berskjalda þig. Þessar mannlegu raunir eru góður grunnur fyrir allt það sem fólk elskar að sjá í kvikmyndum, fáránlegt grín, mannlegt drama og litríkar persónur sem fara með þig í kvikmyndalegt ævintýri,“ sagði Hafsteinn.
Þetta er fyrsta kvikmyndin á ensku sem Hafsteinn leikstýrir en hann hefur meðal annars leikstýrt íslensku kvikmyndum Undir trénu og París norðursins.