Flughrædd í meðferð á Mývatni

Frá tökum á Northern Comfort, frá vinstri Rob Delany, Ella …
Frá tökum á Northern Comfort, frá vinstri Rob Delany, Ella Rumpf, Timothy Spall, Lydia Leonard og Simon Manyonda. Ljósmynd/Brynjar Snær Þrastarson.

Kvikmyndavefurinn Deadline greindi frá því í fyrradag að tökur væru nú hafnar við Mývatn á nýrri kvikmynd í leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar sem nefnist Northern Comfort og að enski stórleikarinn Timothy Spall væri þar í einu aðalhlutverkanna ásamt Sverri Guðnasyni, ensku leikkonunni Lydiu Leonard og hinni þýsku Ellu Rumpf en báðar leikkonur eru á mikilli uppleið í kvikmyndaheiminum. Þá fer Björn Hlynur Haraldsson einnig með hlutverk í myndinni og nokkrir Íslendingar til viðbótar.

Handritið skrifaði Hafsteinn með þeim Dóra DNA, þ.e. Halldóri Laxness Halldórssyni og Tobias Munthe og sögusvið myndarinnar er bæði Ísland og London. Munthe hefur starfað með Hafsteini áður því hann var einn framleiðanda kvikmyndarinnar Á annan veg sem síðar var endurgerð í Bandaríkjunum sem Prince Avalance.

Hafsteinn, lengst til hægri, á frumsýningu kvikmyndarinnar Saumaklúbburinn í fyrra …
Hafsteinn, lengst til hægri, á frumsýningu kvikmyndarinnar Saumaklúbburinn í fyrra með þeim Magneu Guðmundsdóttur, Birtu Fróðadóttur og Halldóri Laxness Halldórssyni eða Dóra DNA. mbl.is/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Glæstur ferill

Spall ættu flestir ef ekki allir kvikmyndaunnendur að þekkja enda fer þar einn fremsti kvikmyndaleikari Breta. Hefur hann m.a. farið með hlutverk listmálarans JMW Turner í Mr. Turner, leikið í nokkrum kvikmynda hins virta Mike Leigh og má af þeim nefna Secrets & Lies.Fyrir yngri kynslóðina má nefna Harry Potter-myndirnar þar sem Spall fór á kostum sem endranær. Sverrir Guðnason er að sama skapi með glæsilegan feril og einn þekktasti leikari Svíþjóðar þar sem hann býr og starfar. Er skemmst að minnast góðrar frammistöðu hans í hlutverki Björns Borg í Borg McEnroe.

Shia LaBeouf og Sverrir Guðnason í Borg McEnroe.
Shia LaBeouf og Sverrir Guðnason í Borg McEnroe.

Kviknaði í námi

Blaðamaður náði tali af Hafsteini í gærmorgun, skömmu fyrir tökur og spurði hann fyrst að því hvenær hugmyndin að Northern Comfort hafi kviknað. „Hún kviknaði þegar ég var í námi í kvikmyndaskóla í New York fyrir einum fimmtán árum. Maður mér nákominn er mjög flughræddur og fór á námskeið til að reyna að vinna bug á því og ég fór að hugsa um þetta fyrirbæri, fannst það skemmtilegt sögusvið fyrir kvikmynd um mannlegan breyskleika, viðkvæmni, ótta og kvíða,“ svarar Hafsteinn.

–Þetta er gamanmynd?
„Já, og gerist á svona námskeiði. Hópur fólks í London er á flughræðslunámskeiði sem er hópþerapía undir handleiðslu sérfræðings sem endar með því að það er flogið eitthvert, á einhvern áfangastað og svo beðið í tvo tíma meðan verið er að umlesta vélina og svo er flogið til baka. Þetta er lokapróf námskeiðsins og í þessu tilfelli er flogið til Íslands. Það fer ekki alveg eftir áætlun,“ svarar Hafsteinn. Hluti myndarinnar gerist því á Íslandi en hún hefst í London og segir Hafsteinn tökurnar enda þar. Stór hluti myndarinnar gerist svo líka um borð í flugvél.
–Spall er langfrægasti leikarinn í hópnum, var erfitt að landa honum?
„Ég veit ekki hvað skal segja. Ég sendi honum handrit og hef verið mikill aðdáandi hans í mörg ár, er mjög hrifinn af hans verkum og vinnu og hann var ofarlega á blaði fyrir þetta hlutverk. Hann fílaði handritið, skoðaði mínar myndir og var bara mjög til í þetta, satt að segja, og það er bara mikill unaður að vinna með honum.“

Spall ungur að árum í hinni áhrifamiklu kvikmynd Secrets & …
Spall ungur að árum í hinni áhrifamiklu kvikmynd Secrets & Lies.

„Frábær hópur“

Spall leikur flughræddan mann líkt og aðrir helstu leikarar myndarinnar. Hafsteinn segir leikarahópinn stórkostlegan og að það hafi verið ótrúlega gaman að vinna með þessu fólki. Nokkrir leikaranna séu á hraðri uppleið í geiranum enda virkilega hæfileikaríkir eins og hann hafi fengið að kynnast núna í tvær vikur. „Þetta er frábær hópur,“ segir Hafsteinn og ber lof á alla leikarana.
Hvað hlutverk Björns Hlyns varðar segir Hafsteinn að hann vilji sem minnst segja annað en að hann sé ákveðinn örlagavaldur í myndinni og þá í íslenska hlutanum. Fleiri íslenskri leikarar verða svo í minni hlutverkum.
–Ég frétti að það hefði verið mikið stuð í tökum og mikið hlegið?
„Já, þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og mjög góð stemning. Við erum búin að vera hér öll saman á hóteli, búum á hótelinu, tökum þar og þetta eru algjörar kjöraðstæður. Þetta er ótrúlega skemmtilegur hópur og góður andi, það virðast allir hafa haft gaman af vinnunni og ég held að það muni pottþétt skila sér inn í myndina,“ svarar Hafsteinn.
–Og Spall að reita af sér brandara?
„Já, hann er mjög skemmtilegur, hlýr og auðmjúkur og gaman að vera í hans félagsskap.“

Áttu samleið

–Nú ertu kominn með mikla reynslu sem leikstjóri og þá væntanlega sjálfstraust með en var ekki dálítið skrítið fyrst að leikstýra svona þekktum leikara?
„Auðvitað ber maður rosalega virðingu fyrir honum og öllu en þetta snýst svo mikið um mannleg samskipti, maður talar sig inn á að við séum að fara að gera sömu myndina og við erum með sama skilning á sögunni, handritinu og karakternum. Þegar það er komið þá verður þetta allt mjög eðlilegt og organískt. Ég held að maður finni það bara frá fyrsta samtali. Við hittumst á Zoom og spjölluðum eftir að hann hafði lesið handritið og ég held að við höfum báðir fundið að við ættum samleið með verkefnið. Ef það er til staðar held ég að þetta sé alltaf frekar eðlilegt.“
–Svo er þetta alltaf líka spurning um að vilja fara til Íslands, eða hvað?
„Jú, það er faktor líka, alveg pottþétt, algjörlega. Og það er bara frábær faktor sem við höfum og getur verið aðlaðandi fyrir fólk og líka ekki. Þetta er líka fólk sem vinnur út um allt og er út um allt og þráir kannski að vera meira heima hjá sér. Þetta getur verið í allar áttir.“

Spall í hlutverki listmálarans JMW Turner í Mr. Turner.
Spall í hlutverki listmálarans JMW Turner í Mr. Turner.

Fallegt vetrarríki

–Hvað fannst þessum hópi um Mývatn?
„Bara yndislegt, þetta er náttúrlega ótrúleg fegurð, að vera hérna í vetrarríki sem við vorum líka að sækjast eftir fyrir myndina,“ svarar Hafsteinn. Mývatn hafi verið kjörinn tökustaður.
Eins og nær má geta er hluti sögusviðsins farþegarými flugvélar. „Án þess að ég vilji segja of mikið, þetta er svona mynd sem er óvænt ferðalag. Sem áhorfandi myndi ég vilja vita sem minnst en það er auðvitað búið að gefa fullt upp og allt það,“ segir Hafsteinn. Hans bíði tæknilega flókin útfærsla sem hann sé spenntur fyrir og hafi ekki reynslu af, hafi ekki gert áður.

Spall getur brugðið sér í ýmissa kvikinda líki, eins og …
Spall getur brugðið sér í ýmissa kvikinda líki, eins og sjá má, og hér er hann í hlutverki Peter Pettigrew í einni kvikmyndanna um Harry Potter.

Virðuleg hátíð sem gerir verkefninu gott

Hafsteinn er að lokum spurður að því hvort stefnt sé að frumsýningu á Sundance kvikmyndahátíðinni í byrjun næsta árs og svarar hann því til að það sé vissulega ofarlega á óskalistanum. „Þetta er í höndum sölufyrirtækis og ég hugsa að myndin verði tilbúin eftir ár,“ segir Hafsteinn. Honum sé í raun sama hvar myndin verði frumsýnd svo lengi sem það sé á virðulegri hátíð sem geri verkefninu gott. „Við vonandi höfum einhverja tilfinningu fyrir því með haustinu þegar við verðum með tilbúna mynd, hvar þetta endar allt saman.“

Hér má sjá YouTube-myndband enska kvikmyndarýnisins Mark Kermode um þær tíu kvikmyndir Spall sem honum þykja bestar: 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er nauðsynlegt að eyða tíma með ungviðinu og um leið að finna barnið í sjálfum sér. Gættu þess að ganga ekki á rétt annarra.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Sofia Rutbäck Eriksson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er nauðsynlegt að eyða tíma með ungviðinu og um leið að finna barnið í sjálfum sér. Gættu þess að ganga ekki á rétt annarra.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Sofia Rutbäck Eriksson