Hafði fé af fjölda fólks

Julia Garner í hlutverki sínu í Inventing Anna.
Julia Garner í hlutverki sínu í Inventing Anna. Netflix

„Ég gæti verið með frétt. Hún heitir Anna Delvey eða Anna Sorokin. Enginn veit það fyrir víst. Hún er annaðhvort af ríku þýsku aðalsfólki eða staurblönk. Það sem henni er gefið að sök er gjörsamlega galið.“

Þannig kemst blaðamaðurinn Vivian að orði í stiklunni fyrir leiknu þættina Inventing Anna sem komu inn á Netflix fyrir helgina.

Sjálf lýsir efnisveitan þáttunum með þessum hætti:

„Í Inventing Anna rannsakar blaðamaður sem þarf heldur betur að sanna sig mál Önnu Delvey, Instagram-goðsagnarinnar og þýsku erfðamærinnar sem stal hjörtum þotuliðsins í New York – og peningum þess um leið.

En er Anna stærsti svindlarinn í New York eða bara ný birtingarmynd ameríska draumsins? Anna og blaðamaðurinn stofna til drungalegs en um leið kómísks ástar-haturssambands meðan Anna bíður eftir réttarhaldi sínu og blaðamaðurinn rembist eins og rjúpan við staurinn við að svara spurningunni sem er á allra vörum í New York: Hver er Anna Delvey?“

Hin raunverulega Anna Sorokin fyrir dómi í New York árið …
Hin raunverulega Anna Sorokin fyrir dómi í New York árið 2019, þar sem hún var dæmd í fjögurra til 12 ára fangelsi fyrir að svíkja fé út úr hinum og þessum. AFP

Byggjast á sannri sögu

Dugi þessi lýsing ekki til að kveikja í ykkur þá má vel henda þeirri staðreynd hér í púkkið að þættirnir byggjast á sannri sögu. Anna Delvey er í raun og sann til. Eða er það Anna Sorokin?

Hún hafði fé af fjölda fólks í New York á síðasta áratug og hlaut fjögurra til 12 ára óskilorðsbundinn dóm fyrir svik, þjófnað og sitthvað fleira árið 2019 en þá hafði hún setið í varðhaldi frá því hún var tekin höndum síðla árs 2017.

Þá var henni gert að greiða svimháar upphæðir í bætur vegna gjörða sinna. Sorokin var leyst úr haldi í fyrra en handtekin jafnharðan aftur, þar sem landvistarleyfi hennar var útrunnið. Hún bíður þess nú að vera vísað úr landi.

Ætlar ekki að horfa

Sorokin situr sultuslök í fangaklefa sínum yfir öllu moldviðrinu og hefur engin áform um að horfa á þættina.

„Það lítur ekki út fyrir að ég muni horfa á Inventing Anna,“ sagði hún í opnu bréfi í Insider, „jafnvel þótt mér tækist að toga í einhverja strengi og koma því í kring. Það er nefnilega mjög ógeðfelld tilhugsun að horfa á skáldaða útgáfu af sjálfri mér á þessu geðveikrahæli sem ég er föst á.“

Hún viðurkennir þó að hún sé forvitin að vita hvernig farið verði með heimildir eftir alla þá rannsóknarvinnu sem liggur að baki blaðaskrifunum og þáttunum.

„Ég vil bara ekki vera föst með þessu fólki sem er að draga nafn mitt í svaðið. Ég sit bara hér inni vegna þess að útlendingastofnun ákvað að réttmæt lausn mín úr fangelsi skipti hana ekki minnsta máli.“

Nánar er fjallað um þættina og málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú verðurðu að hægja aðeins á þér og gefa þér tíma til þess að fara í gegnum persónuleg mál sem þola enga bið. Umgengni lýsir innri manni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
4
Kolbrún Valbergsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú verðurðu að hægja aðeins á þér og gefa þér tíma til þess að fara í gegnum persónuleg mál sem þola enga bið. Umgengni lýsir innri manni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
4
Kolbrún Valbergsdóttir