Danski sjónvarpsþátturinn Borgen, eða Höllin, snéri aftur eftir níu ára bið í Danmörku í byrjun vikunnar. Fyrsti þátturinn í fjórðu þáttaröð fékk ekki jafnmikið áhorf og fyrri þættir þegar hann var frumsýndur á sjónvarpsstöðinni DR á sunnudaginn.
Endurkomu Birgitte Nyborg hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Það voru 785 þúsund manns sem kveiktu á sjónvarpinu þegar stjórnmálakonan snéri aftur að því fram kemur á vef Ekstra Bladet. Daginn eftir var ný þáttaröð af danska þættinum Badehotellet frumsýnd á TV 2. Töluvert fleiri horfðu á þáttinn um hótelið eða ein milljón og 248 þúsund. Horfðu því yfir 400 þúsund fleiri á Badehotellet en Borgen.
Borgen var afar vinsæll þáttur þegar þættirnir voru sýndir á árunum 2010 til 2013. Þá horfðu ein og hálf milljón á hvern þátt að meðaltali. Síðan þá hefur sjónvarpsneysla fólks breyst töluvert.
Þættirnir nutu mikilla vinsælda á Íslandi þegar þeir voru sýndir á RÚV. Nýjasta þáttaröðin var gerð í samstarfi við streymisveituna Netflix og fer í sýningu þar með vorinu. Hægt er að háma í sig fyrri þáttaraðir á Netflix og rifja upp kynnin við Nyborg og félaga fyrir næstu þáttaröð.