Þrjár konur hafa verið valdar til þess að kynna Óskarsverðlaunin sem verða veitt í næsta mánuði. Þetta eru grínistarnir Regina Hall, Amy Schumer og Wanda Sykes. Er talið að þetta sé gert til þess að fá áhorfendur aftur að skjánum.
Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2018 sem formlegur kynnir er á Óskarverðlaununum og í fyrsta sinn síðan árið 1987 sem þrír kynnar sjá um að kynna hátíðina. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem þrjár konur eru kynnar á Óskarnum.
Nöfn kvennanna voru opinberuð í bandaríska spjallþættinum Good Morning America á ABC í vikunni. „Ég veit ekki hverjum fannst þetta góð hugmynd en ég verð kynnir á Óskarnum ásamt vinkonum mínum Wöndu Sykes og Reginu Hall. Ætli ég verði ekki að fara horfa á einhverjar myndir,“ sagði Schumer í þættinum.
Sjónvarpsáhorf á verðlaunin hefur minnkað mjög mikið á undanförnum árum. Í fyrra voru aðeins um tíu milljónir sem horfðu á verðlaunin. Kórónuveirufaraldurinn hafði mikil áhrif á verðlaunin í fyrra en í ár verður allt lagt í sölurnar. Verðlaunin verða afhent í lok mars sem er aðeins seinna en vanalega og er ástæðan meðal annars Vetrarólympíuleikarnir og Ofurskálin.