Fimleikastjarnan Simone Biles er trúlofuð en kærasti hennar, NFL-leikmaðurinn Jonathan Owens, fór á skeljarnar á Valentínusardaginn. Biles þurfti ekki að hugsa sig um þegar hún sagði já.
Biles greindi frá trúlofuninni á Instagram á þriðjudaginn. Owens bað Biles í garðhýsi í Houston í Bandaríkjunum. Biles sagði að það hefði aldrei verið jafn auðvelt að segja já og sagðist ekki geta beðið eftir að verja ævinni með unnusta sínum.
Biles og Owens staðfestu samband sitt í ágúst 2020 með mynd á samfélagsmiðlum. Þau fögnuðu eins árs sambandsafmæli í fyrra en gátu ekki verið saman þar sem Biles var að keppa á Ólympíuleikunum í Tókýó.