Franska kvikmyndahátíðin hófst í dag, 18. febrúar, og stendur yfir til og með 27. febrúar. Hátíðin fer fram í Bíó Paradís, í samstarfi við franska sendiráðið á Íslandi og Alliance Française í Reykjavík og er nú haldin í 22. sinn.
Opnunarmynd hátíðarinnar er sú nýjasta eftir leikstjórann Jacques Audiard, París, 13. hverfi eða Les Olympiades eins og hún heitir á frönsku. Ása Baldursdóttir, dagskrárstjóri í Bíó Paradís, segir myndir hátíðarinnar í ár átta talsins í almennri dagská og þrjár verði svo sýndar að auki á sérsýningum. Myndirnar eru því í raun ellefu og má sjá sýningatíma á vef kvikmyndahússins, bioparadis.is.
Ása valdi allar myndir hátíðarinnar og sú sem vakti hvað mesta athygli í fyrra var Aline, kvikmynd sem er hálfævisöguleg og byggð á ævi og ferli söngkonunnar Celine Dion. Myndina sá Ása á kvikmyndahátíðinni í Cannes og segir marga þar hafa verið með hjartað í buxunum. „Það er svo erfitt að gera góða sjálfsævisögulega mynd um listamann sem er enn þá lifandi án þess að klúðra því,“ segir Ása kímin. Sem betur fer sé myndin bara lauslega byggð á ævi Dion og rosalega vel gerð. „Hún heldur sig ekki við bókstaflega ævisögu heldur fer frjálslega með heimildir,“ segir Ása og því ekki reynt að líkja fullkomlega eftir fyrirmyndinni eða segja nákvæmlega frá atburðum.
Leikkonan sem fer með aðalhlutverkið, hlutverk Aline, er Valérie Lemercier og er hún einnig handritshöfundur myndarinnar ásamt Brigitte Buc og leikstjóri. Myndin vakti athygli vegna þess annars vegar að Dion hafði ekki veitt leyfi fyrir gerð hennar, sem virðist þó á endanum ekki hafa orðið á stórmáli, og hins vegar vegna þess að Lemercier leikur Aline á öllum æviskeiðum og þá meðal annars fimm ára að aldri. Er leikkonan yngd upp með tölvubrellum sem mun vera kostulegt.
„Þetta er alveg sprenghlægilegt,“ segir Ása kímin um þessa yngingaraðferð og líka að leikkonan komist upp með þetta. „Auðvitað sér maður að þetta er ekki barn,“ segir hún en þetta hafi þó ekki truflað hana við áhorfið. Myndin sé fyrst og fremst góð skemmtun.
Opnunarmyndin, Les Olympiades, er erótísk ungmennasaga og sögusviðið hverfið Olympiades í París. Myndin er tekin upp í svarthvítu og útkoman stórkostleg, að sögn Ásu. Hún segir að myndin sé engan veginn gamaldags heldur þvert á móti mjög nútímaleg. Leikararnir eru af ólíku bergi brotnir og allir ungir og upprennandi og táknmynd fyrir hið nýja hverfi, öðruvísi gildi og samskipti sinnar kynslóðar, að sögn Ásu.
Hún segir leikstjórann, Audiard, draga upp flókna mynd af mörkum vináttu og kynlífs og hinu djarfa í erótík og kynlífi. „Sem er náttúrlega líka ákveðið tabú á tímum metoo og alls konar atriða í samfélagslegri umræðu alþjóðlega,“ segir Ása. Þetta sé heit mynd sem megi túlka frá ólíkum sjónarhornum.
Ása nefnir einnig kvikmyndina Deux, eða Þær tvær, sem sé hennar uppáhaldsmynd á hátíðinni. Tvær leikkonur fara með aðalhlutverkin, Barbara Sukowa sem er þýsk og Martine Chevallier sem er frönsk. Segir í myndinni af eftirlaunaþegunum Ninu og Madeleine sem eru lesbíur og hafa haldið sambandi sínu leyndu áratugum saman. Þegar önnur þeirra veikist hrynur allt, að sögn Ásu. „Mér fannst hún æðisleg, ég bara hágrét,“ segir hún um Þær tvær.
Ása er spurð hvort myndir hátíðarinnar eigi eitthvað sameiginlegt umfram tungumálið, frönsku, hvort eitthvert þema megi til dæmis greina á hátíðinni í ár. „Ég held að eina þemað sé franskar kvikmyndir á árinu sem hafa skarað fram úr með því að sanna listrænt gildi sitt. Þetta er val á frönsku kvikmyndahlaðborði með listrænum áherslum,“ svarar Ása.
Hvorki gefst tími né pláss til að tala um allar myndir hátíðarinnar en ein sú forvitnilegasta er teiknimyndin Calamity sem verður með íslenskum texta og hentar því allri fjölskyldunni. Sögusvið myndarinnar er Norður-Ameríka árið 1863 og segir af ungri stúlku sem þarf að þykjast vera strákur til að fá að vinna karlmannsstörf og eitt þeirra er að aka hestvagni fjölskyldunnar. Myndin hefur hlotið mikla athygli og verðlaun á kvikmyndahátíðum.
Þrjár mynda hátíðarinnar fara í sýningu að henni lokinni en þær eru Les Olympiades, Deux og Tout s'est bien passé, eða Allt fór vel, en sú síðastnefnda er eftir hinn merka leikstjóra Francois Ozon.