Rapparinn Ye, betur þekktur sem Kanye West, segist aðeins ætla að gefa nýju breiðskífu sína, Donda 2, út á svokölluðum „Stem Player“, tæki úr hans eigin smiðju.
Þessu greindi rapparinn frá í Instagram-færslu í dag þar sem kemur fram að hann ætli sér ekki að gefa út plötuna á öðrum streymisveitum á borð við Spotify, Apple Music, YouTube, eða Amazon.
Stem Player, tækið sem um ræðir, er aðeins fáanlegt á sérstakri vefsíðu þess á slétta 200 Bandaríkjadali, sem samsvarar tæpum 25 þúsund íslenskra króna.
Tækið er hannað með þeim hætti að hægt er að hlusta á lög Wests, einangra sérstakar hljóðrásir laganna og endurhljóðblanda. Hægt er síðan að taka upp „mixin“ og hlusta á þau aftur eða geyma þau á tækinu, sem býr yfir átta gígabæta geymsluplássi.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem West hótar slíku en árið 2016 við útgáfu breiðskífu hans The Life of Pablo sagði hann að hún myndi aðeins koma út á streymisveitunni Tidal. „Platan mun aldrei koma út hjá Apple,“ sagði West meðal annars auk þess sem hann þvertók fyrir að hún færi í almenna sölu.
Nokkrum vikum síðar kom platan síðan út bæði á Apple Music, sem og Spotify, mörgum sem höfðu fjárfest í Tidal-áskrift til mikillar gremju.
Tilkynning Wests kemur í kjölfar mikils fjölmiðlafárs sem tengist því sem að mörgum þykir erfiðleikar hans við að sætta sig við að fyrrverandi eiginkona hans, Kim Kardashian, sé komin í nýtt samband með spéfuglinum Pete Davidson.
Hann hóf í dag á nýjan leik að tjá sig um málefni Kardashian og Davidson, sem hann uppnefnir oftar en ekki sem „Skete“.
Færsla Ye: