Reykjavíkurdætur hita upp fyrir Söngvakeppni sjónvarpsins með því að takast á við eitt farsælasta framlag Íslendinga til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (e. Eurovision), lagið „All Out of Luck“ sem Selma Björnsdóttir flutti árið 1999 og skilaði Íslendingum öðru sæti í keppninni.
Reykjavíkurdætur hafa nú sent frá sér ábreiðu af laginu ásamt myndskeiði en sveitin tekur þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins, undankeppninni fyrir Eurovision.
„Dæturnar tjá að þær séu allar miklir aðdáendur lagsins og Selmu og hafi gerð ábreiðunnar gert þær enn spenntari fyrir þáttöku sinni í Söngvakeppninni. Með útgáfu lagsins fylgir tónlistarmyndband unnið úr klippum af meðlimum Reykjavíkurdætra á þeim aldri sem þær voru þegar þær heyrðu lagið fyrst, ásamt klippum af tónleikaferðlögum sveitarinnar um Evrópu og Norður Ameríku,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurdætrum.
Lagið er útsett af Sölku Valsdóttur og myndbandið klippt af Elfgrime.