Chet Hanks, sonur stórleikarans Tom Hanks og leikkonunnar Ritu Wilson, segir að hann hafi ekki haft sterka föðurímynd til að líta upp til í uppvextinum. Hann segir það erfitt að hafa alist upp í sviðsljósinu.
Chet opnaði sig í myndbandi á YouTube-rás sinni í vikunni. „Ég hafði ekki sterka föðurímynd til að segja mér að þessir gaurar væru bara afbrýðisamir sem voru að stríða mér,“ sagði Chet í myndbandinu. Hann sagði að hann hafi þurft að þola mikla stríðni frá krökkunum í skólanum fyrir að eiga fræga foreldra.
„Maður á allt þetta dót sem þau langar í, svo þau reyna að drulla yfir þig, svo þér líði illa með sjálfan þig. Bara af því þau eru afbrýðisöm. Það var enginn til staðar til að segja mér þetta. Núna er ég að segja litla mér þetta, það sem ég þurfti að heyra þegar ég var lítill,“ sagði Chet.
Hann bætti við að fólk hafi alltaf haft skoðun á honum áður en það kynntist honum í raun og veru. Það hafi verið honum erfitt að tengjast öðru fólki.
„Fólk var mikið að fokka í mér þegar ég var að alast upp. Það sagði enginn neitt fyrir framan mig. Það var sagt svo ég heyrði ekki til, í formi slúðurs,“ sagði Chet.