Kvikmyndastjörnur um allt land í tökum

Fjögur stór erlend kvikmyndaverkefni fara fram á landinu þessa dagana.
Fjögur stór erlend kvikmyndaverkefni fara fram á landinu þessa dagana. Samsett mynd

Eftir magra daga á tímum kórónuveirunnar er nú að færast líf í kvikmyndabransann á ný. Það sést vel á því að um þessar mundir fara fram tökur á fjórum stórum erlendum kvikmyndaverkefnum hér á landi, tveimur kvikmyndum og tveimur sjónvarpsþáttaröðum. Umfang þessara kvikmyndataka er slíkt að ekki er til nóg af innlendu vinnuafli til að sinna þeim öllum á sama tíma og því eru tökuliðin að stórum hluta skipuð erlendu kvikmyndagerðarfólki.

Stærsta verkefnið eru tökur á vegum risans Marvel sem voru við Mývatn á dögunum. Mikil leynd hefur hvílt yfir þessu verkefni sem ber vinnuheitið „Safari“ meðal fólks í kvikmyndabransanum. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er talað um svokallað „Marvel offshoot“ sem ku vísa til að um hliðarsögu í Marvel-heiminum sé að ræða. Einn heimildarmanna blaðsins sagði að sagan tengdist sjálfum Spiderman en það hefur ekki fengist staðfest.

Það fór ekki fram hjá heimamönnum í Mývatnssveit að kvikmyndatökulið var í sveitinni enda lagði það undir sig þrjú hótel, þar á meðal hið glæsilega Icelandair-hótel. Heimildarmönnum blaðsins ber ekki saman um hversu margir voru í tökuliðinu. Hefur verið giskað á að starfsmenn hafi verið einhvers staðar á bilinu 2-300 þegar mest lét.

Framleiðslufyrirtækið TrueNorth fékk leyfi til kvikmyndatöku á Mývatni fyrr í mánuðinum. Leyfið fól í sér að búnaður yrði fluttur út á ísilagt vatnið og vélsleðar yrðu notaðir til að knýja vindvélar. Reykvélar yrðu hins vegar rafstýrðar. „Ekki verður sett upp leikmynd en við tökurnar verður mögulega notast við gervisnjó sem er ekki skaðlegur umhverfinu. Með umsókn fylgdu efnafræðilegar upplýsingar um gervisnjóinn. Við tökurnar verður notast við fimm sleðahunda. Loftmyndatökur fara fram með dróna eða þyrlu,“ sagði í lýsingu á Marvel-verkefninu. Þar kom jafnframt fram að 80 manns kæmu að tökunum á vatninu sem standa áttu í tvo daga. Vinnubúðir yrðu settar upp á túni í nágrenninu.

mbl.is

Tökur á Deplum og Vök Baths

Tökum á kvikmyndinni Luther með breska leikaranum Idris Elba lauk hér á landi í vikunni en þær fóru meðal annars fram á Svínafellsjökli. Netflix framleiðir myndina í samstarfi við BBC. Það var RVK Studios, fyrirtæki Baltasars Kormáks, sem var tökuliðinu innan handar hér á landi.

Um þessar myndir standa yfir tökur á sjónvarpsþáttunum Washington Black sem framleiddir eru fyrir efnisveituna Hulu. Tökur hafa farið fram á Austurlandi og í myndveri í Reykjavík. Um er að ræða níu þátta seríu sem byggð er á samnefndri bók eftir kanadíska rithöfundinn Esi Edugyan sem meðal annars var tilnefnd til Booker-verðlaunanna þegar hún kom út árið 2018. Velski leikarinn Thomas John Ellis fer með eitt aðalhlutverkanna en hann er þekktur fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum Lucifer sem sýndir hafa verið á Netflix.

Í næsta mánuði hefjast svo tökur hér á landi á sjónvarpsþáttunum Retreat sem skarta þeim Clive Owen og Emmu Corrin í aðalhlutverki. Corrin fór nýlega með hlutverk Díönu prinsessu í sjónvarpsþáttunum The Crown. Framleiðslufyrirtækið FX gerir þættina en það heyrir undir Fox. Um stórt verkefni er að ræða, alls um 16 tökudaga hér á landi. Einn heimildarmanna blaðsins taldi að kostnaður við tökurnar hér væri um 800-900 milljónir króna. Tökur fara m.a. fram á baðstaðnum Vök við Egilsstaði, á lúxushótelinu Deplum í Fljótum og í tónlistarhúsinu Hörpu.

Fjölþjóðlegur her Hafsteins Gunnars á Mývatni

Á sama tíma og tökur fyrir Marvel-mynd fóru fram á Mývatni var leikstjórinn Hafsteinn Gunnar Sigurðsson þar á ferð með fjölþjóðlegan her við gerð næstu myndar sinnar, Northern Comfort. Tökuliðið dvaldi á Fosshóteli þar í sveit í tvær vikur en flutti sig svo suður yfir heiðar og hélt verkinu áfram.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu fer enski stórleikarinn Timothy Spall með eitt aðalhlutverkanna í myndinni ásamt Sverri Guðnasyni, ensku leikkonunni Lydiu Leonard og hinni þýsku Ellu Rumpf. Þá fer Björn Hlynur Haraldsson einnig með hlutverk í myndinni ásamt fleiri löndum sínum.

Handritið skrifaði Hafsteinn með þeim Halldóri Laxness Halldórssyni, betur þekktum sem Dóra DNA, og Tobias Munthe. Sögusvið myndarinnar er bæði Ísland og London.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Loka