„Mikil hvatning“

Gunnar Þorri Pétursson hlýtur Íslensku þýðingaverðlaunin í ár.
Gunnar Þorri Pétursson hlýtur Íslensku þýðingaverðlaunin í ár. Morgunblaðið/Hallur Már

„Ég skal viðurkenna það að það er mikil hvatning að vera tilnefndur, hvað þá að fá verðlaunin, enda er þýðingavinna svolítið basl,“ segir Gunnar Þorri Pétursson sem hlýtur Íslensku þýðingaverðlaunin í ár fyrir þýðingu sína á bókinni Tsjernobyl-bænin, framtíðarannáll eftir Svetlönu Aleksíevítsj sem Angústúra gefur út. Verðlaunin voru afhent á Gljúfrasteini fyrr í dag. 

„Þýðandi er svolítið eins og góður knattspyrnudómari. Ef þú manst ekki eftir honum í leikslok þá hefur hann dæmt leikinn vel, leyft leiknum að spila sig án þess að vekja athygli á sjálfum sér. Kollegi minn Áslaug Agnarsdóttir fann þessa frábæru tilvitnun í rithöfundinn Paul Auster þar sem hann segir að þýðendur séu „skuggahetjur bókmenntanna“. Mér finnst það mjög svöl lýsing á okkar hlutskipti,“ segir Gunnar Þorri. 

Mikla kunnáttu þarf til 

Í dómnefnd sátu Guðrún H. Tulinius formaður, Elísabet Gunnarsdóttir og Þórður Helgason. Í umsögn þeirra segir: „Verkið samanstendur fyrst og fremst af frásögnum fórnarlamba slyssins í Tsjernobyl sem hingað til hefur of lítill gaumur verið gefinn, en þessi aðferð er í anda annarra verka höfundarins, Svetlönu Aleksíevítsj, sem áður hefur skrifað um sovéskar konur sem börðust í síðari heimsstyrjöldinni, frásagnir barna úr því stríði og hernaðarbrölt Sovétmanna í Afganistan. Þeir sem segja sögu sína hér eru af ýmsum meiði, fræðimenn, eiginkonur þeirra sem verst urðu úti, foreldrar sem horfa á börn sín veikjast og deyja, flóttafólk sem sneri aftur, fólk sem flutt var með valdi af hættusvæðinu, fólk sem vildi ekki yfirgefa jarðir og búfénað, börn, hermenn sem sáu um hreinsun og svo „hetjurnar.

Þetta er ekki predikun, en af frásögnunum sést að erindið er brýnt og að ekki má gleyma atburðunum í Tsjernobyl, því áhrifa þeirra gætir enn og þeir munu hafa áhrif um ókomna tíð. Verkið segir skelfilega sögu, ekki einungis um atburðinn sjálfan, heldur og um það sem fylgdi í kjölfarið og ekki síst um vald og valdsmenn sem bregðast þjóð sinni með lygum og þöggun þannig að öll viðbrögð fólksins verða ómarkviss og tilviljanakennd.

„Sagnfræði sem lendir á milli þilja,“ eins og höfundur verksins orðar það. Undirtitill verksins „framtíðarannáll“, vekur skelk og ekki síður einkunnarorðin, „Við erum úr lofti en ekki úr jörðu komin“. Það boðar ekki gott að vera úr loftinu sem Tsjernobyl andaði yfir okkur.

Hér skilar Gunnar Þorri góðu verki. Hann þarf að setja sig í spor allra þeirra ólíku aðila sem hér segja sögu sína og túlka stöðu þeirra og tilfinningar í gegnum málfarið. Hann gerir það af mikilli þekkingu og góðu innsæi sem sést best af því hvernig hann miðlar röddum verksins og af blæ orðanna skynjum við ólíkar persónur. Hér er ekki um oftúlkun að ræða, heldur raunsæja lýsingu án nokkurrar yfirborðsmennsku. Verkið sýnist auðvelt í framkvæmd, en mikla kunnáttu þarf til að þekkja slík blæbrigði og mikið þolgæði þegar lýst er svo hrikalegum atburðum. Gunnar Þorri vinnur verk sitt af einurð.“

Verðlaununum ætlað að heiðra þýðendur 

Aðrir tilnefndir þýðendur í ár voru:
Ásdís R. Magnúsdóttir, fyrir þýðingu sína Fríða og dýrið, franskar sögur og ævintýri fyrri alda. Ýmsir höfundar. Háskólaútgáfan gefur út.
Hallgrímur Helgason, fyrir þýðingu sína Hjartað mitt. Höfundar Jo Witek og Christine Roussey. Drápa gefur út.
Jóhann Hauksson, fyrir þýðingu sína Rannsóknir í heimspeki. Höfundur Ludwig Wittgenstein. Háskólaútgáfan gefur út.
Jón St. Kristjánsson, fyrir þýðingu sína Glæstar vonir. Höfundur Charles Dickens. Mál og menning gefur út.
Jón Hallur Stefánsson, fyrir þýðingu sína Ef við værum á venjulegum stað. Höfundur Juan Pablo Villalobos. Angústúra gefur út.
Sólveig Sif Hreiðarsdóttir, fyrir þýðingu sína Á hjara veraldar. Höfundur Geraldine McCaughrean. Kver gefur út.

Íslensku þýðingaverðlaunin, sem Bandalag þýðenda og túlka, Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda standa að, voru sett á stofn til að minna á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska tungu og menningu og til að heiðra þýðendur sem sinna því vandasama verki að færa okkur vandaðar erlendar bókmenntir á móðurmáli okkar.

Ítarlegar er rætt við Gunnar Þorra Pétursson á menningarsíðum Morgunblaðsins á mánudaginn kemur auk þess sem hann er gestur Dagmála þann sama dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup