Ráðgáta handa 21. öldinni

„Svetlana Aleksíevítsj skírir þessa bók Framtíðarannáll því hún vill meira að Tsjernobyl-slysið sé eitthvað sem við gátum ekki skilið á sínum tíma og erum bara að byrja að skilja núna. Hún segir að slysið sé ráðgáta handa 21. öldinni. Ég held að það sé eitthvað sem við skiljum mun betur núna á tímum hamfarahlýnunar, þessarar ósýnilegu ógnar. Það gerir þessa bók eitthvað svo göldrótta,“ segir Gunnar Þorri Pétursson um bókina Tsjernobyl-bænin, framtíðarannáll eftir Svetlönu Aleksíevítsj sem hann þýddi og Angústúra gaf út á síðasta ári, en bókin kom fyrst út 1997. Gunnar Þorri hlaut um helgina Íslensku þýðingaverðlaunin í ár fyrir þýðingu sína á bókinni. 

Svetlana Aleksíevítsj hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2015, fyrst höfunda frá Hvíta-Rússlandi. Í umsögn Sænsku akademíunnar sagði að Aleksíevítsj hlyti verðlaunin: „Fyrir margradda skrif, vitnisburð um þjáningu og hugrekki á okkar dögum.“ Bækur hennar hafa verið þýddar á 53 tungumál. Tsjernobyl-bænin er fyrsta bók Aleksíevítsj sem kemur út á íslensku. 

Tveir plús tveir eru ekki fjórir

Gunnar Þorri bendir á að þó Aleksíevítsj sé blaðamaður og byggi bækur sínar á viðtölum við fjölda viðmælanda séu bækur hennar fagurfræðilega ótrúlega áhugaverð verk. „Þrátt fyrir að hún haldi sig mjög til hlés sem höfundur og byggi bókina á viðtölum þá beitir hún meðölum skáldskaparins til að miðla þessu. Þú færð þessa sömu natun og dýpt og þú færð út úr því að lesa góðar fagurbókmenntir,“ segir Gunnar Þorri og bendir á að það sé afar sterkur strengur milli Aleksíevítsj og  Fjodors Dostojevskí. 

„Strengurinn milli þeirra er fremur eins og lífæð. Hún segir bókstaflega að hún hefði ekki komist af sem manneskja ef ekki væri fyrir Dostojevskí. Það sem Dostojevskí útskýrir betur en nokkur annar er að það er ekki hægt að þröngva manninum inn í neitt kerfi, hugsanakerfi eða trúarbrögð. Maðurinn mun alltaf þrá það að reyna að fram á það að tveir plús tveir eru ekki fjórir, vegna þess að þessi óskynsemi og þessi fegurðarþrá er manninum í blóð borin,“ segir Gunnar Þorri og bendir á að Dostojevskí takist að fanga og miðla óútreiknanleikanum með fagurfræði sinni sem nefnd hefur verið margradda skáldsagan.

Oft erfitt að elska manninn

Svetlana Aleksíevítsj er að dorga á sömu mið. Í Tsjernobyl-bæninni er enginn alsjáandi höfundur sem stjórnar öllu. Höfundurinn heldur sig í raun mjög til hlés og lætur viðmælendum eftir að tjá sinn vitnisburð og þá birtist rosaleg mósaíkmynd af Tsjernobyl-slysinu sem er ekki stjórnað af einhverjum einum höfundi.“

Gunnar Þorri segir Tsjernobyl-bænina rúma afar átakanlegar frásagnir sem sér hafi reynst erfitt að þýða. „Það eru ákveðnir staðir í þessari bók sem ég hugsaði að mig langaði bara til að þýða einu sinni. Ég einsetti mér að þýða þessa kafla svo vel að ég þyrfti ekki að fara yfir þá aftur. En auðvitað er það ekki hægt. Sem þýðandi þarftu að fara aftur og aftur og aftur og aftur og aftur yfir textann. Það eru atvik í bókinni sem stilla manni svo rosalega upp við vegg og spyrja svo stórra spurninga um mannlega náttúru og mannlega grimmd. Svo kemur á móti að það er svo ofboðslega hugrekki í þessari bók. Þessi bók fjallar svo mikið um ástina,“ segir Gunnar og rifjar upp að þegar Aleksíevítsj hafi komið til Íslands á Bókmenntahátíð í Reykjavík 2013 hafi hún áritað bók fyrir Árna Bergman: með orðunum: „Árni minn, allar bækur mínar fjalla um ástina þótt það sé reyndar oft erfitt að elska manninn.“ 

Viðtalið við Gunnar Þorra Pétursson má horfa á í heild sinni í Dag­mál­um Morg­un­blaðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Forðastu allar skyndiákvarðanir í fjármálum og gættu þess að hafa þá með í ráðum sem máli skipta. Hikaðu ekki við að bera hugmyndir undir fólk sem þú treystir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Anna Sundbeck Klav
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Colleen Hoover
5
Patricia Gibney
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Forðastu allar skyndiákvarðanir í fjármálum og gættu þess að hafa þá með í ráðum sem máli skipta. Hikaðu ekki við að bera hugmyndir undir fólk sem þú treystir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Anna Sundbeck Klav
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Colleen Hoover
5
Patricia Gibney