Hin austurríska Natascha Kampusch segir frá því í nýrri heimildarmynd frá Viaplay þegar henni var haldið fanginni í átta og hálft ár, eftir að hafa verið rænt þegar hún var tíu ára gömul. Hún segist hafa upplifað mikla þolendaskömm frá almenningi eftir að hún slapp úr höndum mannræningja síns. Undanfarin 15 ár hefur hún þurft að þola reiðilegt augnaráð og niðrandi athugasemdir. Hin 33 ára gamla Kampusch telur mikilvægt að beina kastljósinu að þolendaskömm.
Eflaust muna margir eftir sorgarsögu hinnar tíu ára gömlu Natascha Kampusch, sem var rænt úti á götu í Austurríki árið 1998. Næstu 3096 dagana var henni haldið fanginni í fimm fermetra rými í dimmum kjallara, þar sem hún var svelt og misnotuð. Árið 2006 tókst henni að flýja ræningja sinn, sem fyrirfór sér í kjölfarið.
Í þessari Viaplay-Original heimildarmynd segir Natascha Kampusch frá þessari hræðilegu lífsreynslu. Þrátt fyrir að henni hafi tekist að flýja úr kjallaranum, þá hefur henni sjaldnast fundist hún vera frjáls.
„Ég átti von á að mæta skilningsríkum heimi, en í staðinn var tekið á móti mér með hatri og fálæti. Þetta er búið að vera hræðilegt og oft get ég ekki gengið um göturnar án þess að það sé ráðist á mig. Samsæriskenningar um það hvort ég sé ábyrg fyrir eigin mannráni hafa fengið að lifa góðu lífi, og það er eitthvað sem hefur haft mikil áhrif á mig. Það er þess vegna sem ég er glöð að geta sagt ykkur mína sögu í þessari Viaplay-heimildarmynd og beint kastljósinu að þolendaskömm. Ég vona að þetta verði til þess að þeir sem hafa þurft að þola svipaða hluti og ég mæti meiri skilningi frá fjölmiðlum og almenningi en ég gerði,“ segir Natascha Kampusch.
Þessi Viaplay Original heimildarmynd, sem sýnd er í þremur hlutum, fjallar ekki bara um það þegar Natöschu var rænt. Athyglinni er einkum beint að því sem gerðist eftir að hún slapp úr prísundinni, þar sem Natascha hefur þurft að eiga við fjölmiðla og almenning, á sama tíma og hún hefur þurft að berjast fyrir því að fá að vera hún sjálf. Undanfarin 15 ár hefur hún mátt þola ótrúlega mikið hatur og þolendaskömm, ekki aðeins frá austurrísku þjóðinni, heldur öllum heiminum. Natascha Kampusch - A Lifetime in Prison verður frumsýnd 24. febrúar.