„Mér finnst mjög erfitt að þýða. Þegar ég þýði bók þá er það eins og að eyðileggja postulínsbúð,“ segir Gunnar Þorri Pétursson þýðandi og sjálfstætt starfandi fræðimaður. Hann hlaut um helgina Íslensku þýðingaverðlaunin í ár fyrir þýðingu sína á bókinni Tsjernobyl-bænin, framtíðarannáll eftir Svetlönu Aleksíevítsj sem Angústúra gefur út.
Kvalarfullt ferli
„Þegar þú þýðir klúðrar þú öllu og það er allt verra en það var. Allt sem þú dáðist að þegar þú last bókina er hræðilegt eftir fyrsta uppkast og allir brandararnir skila sér ekki. Það er ekki hægt að svindla í þýðingu. Þú verður að velta við hverjum einasta steini,“ segir Gunnar Þorri og tekur fram að þegar verið sé að þýða fagurbókmenntir standi þýðendur í raun frammi fyrir hinu ómögulega.
„Þú þarft að fara í gegnum mjög erfitt ferli þar sem þú sættir þig við það að þetta er ekki hægt. Og svo kvalarfullt ferli sem felst í því að reyna að vinna til baka eins mikið og hægt er af því sem þú ert búinn að eyðileggja,“ segir Gunnar Þorri og tekur fram að það birtist ákveðin þversögn í því að þýðandi býr til eitthvað nýtt á sama tíma og hann í hverju orði fylgir einhverju sem er til, sem sé sérkennilegur línudans.
Endar alltaf úti í fjöru
„Þegar þú þýðir á íslensku ertu alltaf mjög fljótt kominn út í fjöru, vegna þess að allt líkingamálið okkar er sótt í sjávarútveg,“ segir Gunnar Þorri og bendir á að þetta hafi verið áskorun í bók sem gerist í landi eins og Hvíta-Rússlandi sem er landlukt land.
„Þýðandi er svolítið eins og góður knattspyrnudómari. Ef þú manst ekki eftir honum í leikslok þá hefur hann dæmt leikinn vel, leyft leiknum að spila sig án þess að vekja athygli á sjálfum sér. Kollegi minn Áslaug Agnarsdóttir fann þessa frábæru tilvitnun í rithöfundinn Paul Auster þar sem hann segir að þýðendur séu skuggahetjur bókmenntanna. Mér finnst það mjög svöl lýsing á okkar hlutskipti,“ segir Gunnar Þorri og tekur fram að í sínum huga sé afar mikilvægt að þýða heimsbókmenntirnar á íslensku.
Lærði rússnesku út af Dostojevskí
Spurður hvers vegna hann hafi valið að læra rússnesku á sínum tíma segir Gunnar Þorri það hafa verið fyrir tilstilli rússneska rithöfundarins Fjodors Dostojevskí. „Þegar ég var búinn að lesa allar þýðingar Ingibjargar Haraldsdóttur á bókum Dostojevskí fór ég að lesa þær bækur sem hún hafði ekki þýtt á þeim málum sem ég skildi. Svo þegar ég var búinn að því fór ég að lesa ævisögur og bækur um rússnesku 19. öldina. Ég varð bara svo algjörlega heillaður og svo undrandi yfir því að það væri hægt að skrifa svona bækur. Skáldsögur Dostojevskí gerast mjög mikið í Pétursborg, þannig að þá fór mig að langa til að fara þangað,“ segir Gunnar Þorri sem nam við Ríkisháskóla Pétursborgar 2006-2007 og við Moskuháskóla-Lomonosov 2010-2011.
„Seinna fór ég í rússneskar bókmenntir í Helsinki sem er svolítið eins og að vera í Rússlandi með velferðarkerfi. Það var mjög þægilegt, því það var erfitt að búa í Pétursborg og Moskvu. Þó það væri mjög gjöfult þá var það mjög erfitt,“ segir Gunnar Þorri og rifjar upp að eftir báðar námsdvalir sínar í Rússlandi, sem hvor um sig var um níu mánuðir, hafi hann komið uppgefinn heim en fljótlega langað til að fara út aftur.
Þú verður að vera þjáninga þinna verðugur
„Dostojevskí segir á einum stað: „Þú verður að vera þjáninga þinna verðugur.“ Það er ofboðslega mikil þjáning í Rússlandi. Rússneska þjóðin er eins og einstaklingur sem hefur gengið í gegnum eitt áfallið á fætur öðru án þess að geta nokkurn tímann gert það upp eða unnið úr því. Þess vegna er þessi bók svo dýrmæt. Tsjernobyl-slysið er einn eitt áfallið sem er ótrúlega erfitt að vinna úr,“ segir Gunnar Þorri sem stefnir að því að halda námskeið um Tsjernobyl-bænina með vorinu.
„Við stofnunum á síðasta ári félagsskap sem heitir Ástvinir Rússlands og er menningarfélag. Þá héldum við námskeið um Karamazov-bræðurna eftir Dostojevskí sem var mjög vel sótt. Núna á vormánuðum ætlum við að halda námskeið um SA og Tsjernobyl-bænina.“
Viðtalið við Gunnar Þorra Pétursson má horfa á í heild sinni í Dagmálum Morgunblaðsins.