Systurnar Sigga, Beta og Elín Eyþórsdætur, munu reyna fyrir sér sem tríó í Söngvakeppni Sjónvarpsins sem fram fer næstkomandi laugardagskvöld. Lag þeirra, Með hækkandi sól, er eitt af fimm lögum sem koma til með að keppa á fyrra undanúrslitakvöldi keppninnar og freista þess að komast alla leið.
Systurnar hafa allar verið á kafi í tónlist frá unga aldri en þær koma af miklu tónlistarfólki. Foreldrar þeirra eru þau Ellen Kristjánsdóttir, söngkona, og Eyþór Gunnarsson, tónlistarmaður. Má því segja að tónlistarhæfileikarnir séu þeim í blóði bornir. Systurnar eru því ekki að koma fram á svið í fyrsta sinn en þátttaka þeirra í Söngvakeppnninni þetta árið er þeirra fyrsta.
Elín segir allt vera á tjá og tundri þessa dagana en undirbúningur fyrir laugardagskvöldið er í fullum gangi. „Ég er einmitt að reyna að finna mér gítaról til að vera með í þessum töluðu orðum,“ sagði Elín þegar við slógum á þráðinn til hennar og lögðum fyrir þær systur nokkrar skemmtilegar spurningar.
Hvað er Eurovision í þínum huga?
„Eurovision er í okkar huga bara samverustund og fjölskylduskemmtun,“ svaraði Elín fyrir sína og systra sinna hönd. „Þetta er bara gleðistund.“
Hver er þín fyrsta Eurovisionminning?
„Við fórum alltaf í Eurovisionpartí til Kristjáns frænda [tónlistarmannsins KK], sem er bróðir hennar mömmu. Það var alltaf stórt partí þar og þangað mættum við öll saman fjölskyldan og borðuðum góðan mat og svona. Svo vorum við krakkarnir alltaf að safna saman stigum, vorum alltaf með svona stigaleik,“ minnist Elín en segir að hennar allra fyrsta minning hafi verið heima hjá Kristjáni frænda þegar Selma gerði garðinn frægan með laginu All Out Of Luck á sínum tíma. „Ég er fædd 1990 þannig ég hef þá verið níu ára þarna. Þetta var bara svo stórt eitthvað. Ég man bara ekki neitt fram að því augnabliki,“ segir Elín og hlær.
Hvert er þitt uppáhalds Eurovisionlag?
„Ég elska Waterloo með Abba, það er mitt uppáhalds Eurovisionlag,“ segir Elín og þarf ekki að hugsa sig um eitt augnablik. „Ég „coveraði“ það einu sinni því mér þykir þetta bara alveg ótrúlega flott lag. Flottur texti og allt en ég er kannski ekki mikið að dansa við það, ég ætla nú ekki að ljúga því,“ segir Elín. „Við systurnar vorum og erum líka mjög hrifnar af lögum Daða og Hatara - okkur fannst þau geggjuð.“
Hvað er flottasta Eurovisondress allra tíma?
„Okkur Siggu systur finnst dressið hans Páls Óskars bera af. Dressið sem hann var í þegar hann fór út. Hann fær því vinninginn,“ segir hún. „Mér finnst skipta máli að vera í einhverju sjónrænu og skemmtilegu á sviðinu í Eurovision en mér finnst samt skipta meira máli að fólki líði vel í því sem það er, það er lykilatriðið,“ segir Elín.
Hvað er það við ykkar lag sem sker sig úr frá öðrum lögum Söngvakeppninnar í ár?
„Þetta eru allt frábær lög og að mínu mati mjög fjölbreytt,“ segir Elín. „Við erum mest í svona kántrí kannski og það er eitthvað sem er ekkert sérstaklega algengt fyrir Eurovision. Lovísa er náttúrulega frábær lagahöfundur og þetta er bara gaman,“ segir Elín og hrósar tónlistarkonunni Lay Low, eða Lovísu Elísabetu Sigrúnardóttur sem er laga- og textahöfundur lagsins Með hækkandi sól, í hástert.
Allir vita að kjóllinn hennar Jóhönnu Guðrúnar var blár í Eurovision, en veist þú hvernig kjóllinn hennar var á litinn í Söngvakeppninni?
„....Ööö, hvítur? Var hann ekki hvítur?“ spyr hún og hefur svo sannarlega á réttu að standa því hann hvítur var hann.
Hvaða Eurovisionlag myndir þú vera líklegust til að syngja hástöfum í Carpool Karaoke?
„Euphoria. Það er svo mikið stuð.“