Elísabet og Steinar Bragi tilnefnd

Elísabet Kristín Jökulsdóttir og Steinar Bragi eru tilnefnd til Bókmenntaverðlauna …
Elísabet Kristín Jökulsdóttir og Steinar Bragi eru tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Íslands hönd í ár.

Skáldsögurnar Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur og Truflunin eftir Steinar Braga eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022 fyrir Íslands hönd. Þetta var tilkynnt í Gunnarshúsi fyrir stundu.

Elísabet Jökulsdóttir glaðbeitt í Gunnarshúsi í morgun.
Elísabet Jökulsdóttir glaðbeitt í Gunnarshúsi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsbundnar dómnefndir tilnefna í ár samtals 14 verk til verðlaunanna, en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins og verða verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn 1. nóvember í Helsinki í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur sem samsvarar rúmum 5,7 milljónum íslenskra króna.

Embla Garpsdóttir, sonardóttir Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur, fylgist með þegar amma …
Embla Garpsdóttir, sonardóttir Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur, fylgist með þegar amma hennar tekur við hamingjuóskum frá Soffíu Auði Birgisdóttur sem situr í dómnefnd verðlaunanna fyrir Íslands hönd. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Silja Björk Huldudóttir, sem situr í dómnefnd verðlaunanna fyrir Íslands …
Silja Björk Huldudóttir, sem situr í dómnefnd verðlaunanna fyrir Íslands hönd ásamt Kristjáni Jóhanni Jónssyni og Soffíu Auði Birgisdóttur, les upp rökstuðning dómnefndar um Aprílsólarkulda. mbl.is/Eggert Jóhannesson



Hér eru verkin sem tilnefnd eru til bókmenntaverðlaunanna í ár:

Álandseyjar
Hem eftir Karin Erlandsson. Roman. Schildts & Söderströms och Bokförlaget Forum, 2021.

Danmörk
Om udregning af rumfang (I, II og III) eftir Solvej Balle. Roman. Pelagraf 2020-2021.
Adam i Paradis eftir Rakel Haslund-Gjerrild. Roman. Lindhardt & Ringhof. 2021.

Finnland
Eunukki eftir Kristinu Carlson. Roman, Otava, 2020.
Röda rummet eftir Kaj Korkea-aho. Roman. Förlaget M, 2021.

Færeyjar
Sólgarðurin eftir Beinir Bergsson. Dikter. Forlagið Eksil, 2021.

Grænland
Arkhticós Dolorôs eftir Jessie Kleemann. Dikter. Forlaget Arena, 2021.

Ísland
Truflunin eftir Steinar Braga. Roman. Forlagið, 2020.
Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Roman. Forlagið, 2020.

Noregur
Dette er G eftir Inghill Johansen. Roman. Forlaget Oktober, 2021.
Jente, 1983 eftir Linn Ullmann. Roman. Forlaget Oktober, 2021.

Samíska málsvæðið
Beaivváš mánát eftir Mary Ailonieida Sombán Mari. Dikter. Mondo Books 2020.

Svíþjóð
Löpa varg eftir Kerstin Ekman. Roman. Albert Bonniers Förlag, 2021.
Den dagen den sorgen eftir Jesper Larsson. Roman. Nirstedt/litteratur, 2021.


Gæðir efnivið sinn töfrum

Íslensku dómnefndina skipa Kristján Jóhann Jónsson, Silja Björk Huldudóttir og Soffía Auður Birgisdóttir, sem er varamaður. Umsögn dómnefndar um Aprílsólarkulda er svohljóðandi:
„„Dáinn. Dáinn. Hvernig gat það verið. Hvað þýddi þetta orð.“ Þannig hefst skáldævisaga Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur Aprílsólarkuldi (Eitthvað alveg sérstakt) Frásögn um ást og geðveiki og huggun. Í bókinni beitir Elísabet aðferðum skáldskaparins til að rannsaka hvað gerðist þegar hún seint á áttunda áratug síðustu aldar, þá um tvítugt, veiktist af geðhvörfum og upplifði vanmátt og skömm sem hún hefur notað stóran hluta ævinnar til að rannsaka og miðla í list sinni.

Sagan hverfist um Védísi sem á þröskuldi fullorðinsáranna verður fyrir því áfalli að missa föður sinn, en reynist ófær um takast á við þær tilfinningar sem því fylgja. Andlát föðurins neyðir hana nefnilega ekki aðeins til að horfast í augu við forgengileika manneskjunnar heldur það hvernig uppvöxturinn á alkóhólíseruðu heimili með tilheyrandi feluleikjum út á við, óreiðu, hildarleik, æðisköstum móðurinnar og fjarlægð í samskiptum hefur mótað persónuleika hennar og tilfinningalíf. Hún er alin upp við það að nota tungumálið til að blekkja sjálfa sig og aðra, til að segja ekki það sem hún meinar og meina ekki það sem hún segir. Frá blautu barnsbeini hefur henni þannig verið innrætt að bæla niður allar tilfinningar og frysta, því ekkert er eins hættulegt og tilfinningar. Treginn sem herjar á Védísi eftir föðurmissinn er þannig litaður reiði og eftirsjá, sem hún veit ekki hvernig hún á að höndla eða tjá. Loks flækist það fyrir henni að syrgja föður sem henni finnst að hún hafi í reynd misst löngu áður – eða mögulega aldrei átt. Stærsta sorgin í lífi Védísar felst nefnilega í því að hún fékk aldrei að upplifa áhyggjuleysi æskunnar sem barn.

Stuttu eftir andlátið og í taugaáfallinu miðju kynnist Védís Kjartani og ástarsamband þeirra bræðir klakabrynjuna innra með henni þannig að hún lætur undan afli tilfinninganna. Samband þeirra einkennist af ástsýki og stöðugri vímuefnaneyslu með tilheyrandi þráhyggjuhugsunum, ótta, kvíða og þunglyndi.


Lýsing Elísabetar á því hvernig Védís missir smám saman tengslin við raunveruleikann vegna veikinda sinna og telur sig heyra og sjá margvísleg skilaboð í umhverfinu sem eru öðrum hulin er meistaralega vel útfærð. Lausbeislaður stíllinn og húmorinn sem á yfirborðinu ríkir geymir þunga undiröldu. Naívur og tær textinn kallast í fagurfræði sinni sterklega á við barnið sem Védís fékk aldrei að vera, en reynir í vanmætti sínum að hlúa að. Elísabet fjallar á tilfinninganæman og ljóðrænan hátt um vandmeðfarið efni og gæðir efnivið sinn töfrum sem lætur engan ósnortinn.“

Sigþrúður Gunnarsdóttir hjá Forlaginu tók við blómum fyrir hönd Steinars …
Sigþrúður Gunnarsdóttir hjá Forlaginu tók við blómum fyrir hönd Steinars Braga sem ekki átti heimangengt, og Embla Garpsdóttir, sonardóttir Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur, hélt á blómunum fyrir ömmu sína. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kannski höfum við Íslendingar verið tímaskekkja og truflun

Umsögn dómnefndar um Truflunina er svohljóðandi: „Skáldsagan Truflunin fjallar um lítið svæði sem er öðru vísi en umheimurinn. Það getur að mati yfirvalda ekki gengið. Þetta er framtíðarsaga og söguformið er notað til þess að brjóta þverstæður samtímans til mergjar.

Hið truflaða svæði nær yfir þær götur í miðbæ Reykjavíkur sem bera nöfn hinna fornu guða ásatrúarmanna, Óðinsgata skiptir þar að sjálfsögðu miklu máli, einnig Óðinstorg og Óðinsvé. Utan við hið truflaða svæði er umheimurinn og hann er fjölþjóðlegur, þar skiptir þjóðerni litlu sem engu. Aðalpersónan hefur unnið sér harðsóttan rétt til þess að fara gegnum leyndardómsfullan hjúp eða ormagöng og inn á hið truflaða svæði. Erindi aðalpersónunnar inn í Truflunina er að leita skýringa á því sem á seyði er. Því fer þó fjarri að allt sé sem sýnist í þeirri sendiför. Veraldir í þessari sögu eru lengst af tvær, umheimurinn og truflunin. Í þeim líður tíminn ekki á sama hraða en flest annað er óljóst. Truflunin er samkvæmt textanum hola í umheiminum sem opnaðist inn í söguna 5. mars 2030.

Hið eiginlega viðfangsefni þessarar bókar er að í tölvuvæddum heimi hefur vitund okkar verið teygð yfir allan umheiminn, tengd alnetinu og þannig séð erum við öll að breytast í örlítið mismunandi útgáfur af eins konar samvitund. Sérkenni okkar sópast burtu með straumi tækninnar. Hver treystir sér til að staðhæfa að hann sé einstakur eða frábrugðinn öðrum? Samt hefur einstaklingshyggja ef til vill aldrei risið jafn hátt og hún gerir nú. Þverstæður nútímans láta ekki að sér hæða.

Spurningarnar sem vakna við lestur þessarar bókar eru viðamiklar meginspurningar, meðal annars um vísindasiðgæðið og nútímann. Sumar þeirra eru vel kunnar: hvenær verður gervigreindin svo öflug að hún verði ekki skilin frá greind mannsins. Ef eftirlíkingin af greind mannsins verður alfullkomin, verður hún þá ekki jafnframt fullkomnari en sú greind sem hver og einn hefur fengið úthlutað? Í kvikmyndum og bókmenntum er oft lýst átökum milli manna annars vegar og ofurtölva/sæborga eða geimvera hins vegar. Þeirri viðureign lýkur yfirleitt með naumum sigri mannsandans sem byggist oftast á hæfileika mannsins til þess að elska og trúa, - en hver segir að ekki sé hægt að læra það líka?

Það er svolítið fyndið að þessi gamli bæjarhluti í Reykjavík skuli fá það hlutverk í bókinni að verða tímaskekkjan og truflunin í veröldinni. Kannski höfum við Íslendingar verið tímaskekkja og truflun lengur en okkur grunar.“

Markmiðið að vekja athygli á framúrskarandi listaverkum 

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fagna 60 ára afmæli sínu í ár en þau hafa verið veitt síðan 1962 fyrir fagurbókmenntaverk sem samið er á einu af norrænu tungumálunum. Það getur verið skáldsaga, leikverk, ljóðabók, smásagna- eða ritgerðasafn sem uppfyllir strangar kröfur um bókmenntalegt og listrænt gildi.

Eins og fram kemur í samþykktum fyrir bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs er markmið verðlaunanna að auka áhuga á menningarsamkennd Norðurlanda og að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf á sviði lista. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru árlega veitt um leið og önnur verðlaun Norðurlandaráðs, þ.e. barna- og unglingabókaverðlaun, tónlistarverðlaun, kvikmyndaverðlaun og umhverfisverðlaun.

Þess má geta að allar tilnefndar bækur ársins eru aðgengilegar á frummálunum á bókasafni Norræna hússins. Þar má einnig nálgast allar vinningsbækur frá upphafi. Skrifstofa hvorra tveggja bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs hefur verið til húsa í Norræna húsinu frá 2014. Allar nánari upplýsingar um verðlaunin má nálgast á vefnum: www.norden.org/is/bokmenntaverdlaunin

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Með réttu lagi ættir þú að koma málum þínum heilum í höfn. Ekki gefast upp á því að ná markmiðum þínum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Colleen Hoover
4
Snæbjörn Arngrímsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Með réttu lagi ættir þú að koma málum þínum heilum í höfn. Ekki gefast upp á því að ná markmiðum þínum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Colleen Hoover
4
Snæbjörn Arngrímsson