Missti barn og byrjaði að hlaupa

Gísli Örn Garðarsson á hlaupabrettinu í sýningunni Ég hleyp. Hann …
Gísli Örn Garðarsson á hlaupabrettinu í sýningunni Ég hleyp. Hann segist lítinn tíma hafa haft til hlaupaæfinga. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

Ég hleyp nefnist einleikur sem frumsýndur verður í dag, 24. febrúar, í Borgarleikhúsinu og það mjög svo óvenjulegur einleikur því leikarinn verður á hlaupum á hlaupabretti nær allan tímann, í eina og hálfa klukkustund. Leikarinn er Gísli Örn Garðarsson sem áður hefur tekist á við líkamlega erfið hlutverk, m.a. í Rómeó og Júlíu og Hamskiptunum, en þó aldrei verið á hlaupum heila sýningu.

Leikstjóri sýningarinnar er Harpa Arnardóttir og fjallar verkið um karlmann í Reykjavík sem byrjar að hlaupa eftir að hafa misst barn. „Hann hleypur og hleypur og getur ekki hætt. Hann getur ekki höndlað sorgina með öðrum hætti, á hlaupunum finnst honum hann vera léttur, frjáls og sterkur. Þannig getur hann tjáð sig um missinn, ranglætið og varnarleysið sem hrjáir hann,“ segir á vef Borgarleikhússins en verkið er upphaflega danskt, skrifað af Line Mørkeby sem mun vera eitt fremsta leikskáld Danmerkur. Textinn í verkinu er sagður rytmískur, knappur og tilfinningaríkur og ferðalagið óvenjulegt, átakanlegt og heillandi í senn.

Reynsla dansks blaðamanns

Gísli átti hugmyndina að því að verkið yrði sett upp hér á landi en segist þó aldrei hafa séð það á sviði, aðeins heyrt söguna að baki því. „Danskur blaðamaður sem vinnur hjá Politiken verður fyrir þessum barnsmissi, skrifar um það bók og úr henni verður þessi leikgerð,“ segir Gísli. Blaðamaðurinn, Anders Legarth Schmidt, tókst á við missinn með hlaupum, líkt og maðurinn í verkinu, og segir Gísli ekki svo óalgengt að fólk fari að hlaupa til að vinna úr áföllum. „Hann segir að sex tímum eftir missinn hafi hann verið kominn út að hlaupa,“ segir Gísli frá.

Hann segir verkið líka nokkurs konar óð til líkamans, sýna hversu öflugur líkaminn sé og standi undir okkur þegar mesta svartnættið sæki á. „Þetta er mjög marglaga verk og vel unnin leikgerð,“ segir Gísli og að í verkinu sé m.a. komið inn á nokkuð sem hlauparar þekki vel, að þegar hugurinn verði frjáls fylgi því ákveðið „kick“. Gísli segist ekki í hópi hlaupara og hafa lítið verið fyrir hlaup um ævina, þótt þau frekar leiðinleg. En hlauparar þekki vel til þessarar baráttu við hugann og leitist við að komast í ákveðið ástand þannig að hugurinn beri þá hærra.

Mikil áskorun

–Er þetta fyrsti einleikurinn sem þú leikur í?

„Það má eiginlega segja það, já. Þegar ég var að útskrifaðist lék ég í verki með Vesturporti sem hét Herra maður en þá var Hildur Guðna með mér á sviðinu að spila á selló. Síðan þá hefur hún unnið Óskarinn en ég er enn þá að gera einleik,“ segir Gísli og hlær.

–Það er dálítið langt síðan þú lékst síðast á sviði. Var Elly síðasta verkið sem þú lékst í í leikhúsi?

Gísli hugsar sig um. „Ég held að það hafi hreinlega verið á Englandi þegar ég var í leikriti sem hét Don Juan. Ég held það, ég hoppaði inn í Elly og eitthvað svoleiðis en hef ekki leikið undir leikstjórn einhvers annars í háa herrans tíð,“ svarar hann.

–Það má þá segja að þetta sé þreföld áskorun fyrir þig: að snúa aftur á svið eftir langt hlé, leika í einleik og hlaupa allan tímann...

„Já, þetta er algjört rugl,“ svarar Gísli og hlær og tekur undir með blaðamanni að þetta sé dálítið galið. „Maður velur sér ekki alltaf auðveldustu leiðina og það er kannski líka áskorunin í þessu sem höfðar til mín, þetta er allt ógeðslega erfitt og vandmeðfarið og maður óttast þetta á mörgum „levelum“ að fara inn í þetta og það kannski ýtir á mann.“

Verbúð og Covid töfðu hlaup

Gísli er spurður að því hvort hann sé virkilega á hlaupum allan tímann í verkinu.

„Ja, sko, að einhverju leyti. Auðvitað er alls konar blæbrigðamunur á því en þetta hverfist samt í kringum það,“ svarar hann. Hann sé vissulega á brettinu allan tímann, í um 90 mínútur. Brettið sýnir þó ekki kílómetrana sem hlaupnir eru, að sögn Gísla, þar sem það er knúið áfram af hlauparanum, ólíkt þeim rafstýrðu sem fólk notar í líkamsræktarstöðvum. „Það leit einhvern veginn best út og svo var mér sagt eftir á að það væri 30-40% erfiðara að hlaupa á þannig bretti,“ segir Gísli og hlær. Í hverri sýningu muni hann hlaupa um 10 til 12 kílómetra, takk fyrir.

–Þú hefur þá væntanlega verið að æfa þig að hlaupa í nokkra mánuði?

„Ég missti af þeim glugga,“ svarar Gísli kíminn. Hann hafi vissulega ætlað að undirbúa sig með hlaupum í nokkra mánuði fyrir sýningu en Verbúðin hafi tekið mun meiri tíma frá honum en hann hafi reiknað með og auk þess hafi hann fengið Covid-19 og orðið fjári veikur. „Ég lauk því bara í janúar og tók þetta svolítið bara á hnefanum,“ útskýrir Gísli.

Gísli Örn Garðarsson og Nína Dögg Filippusdóttir í hlutverkum sínum …
Gísli Örn Garðarsson og Nína Dögg Filippusdóttir í hlutverkum sínum í Verbúðinni.

Orka og þakklæti

–Þetta er mjög óvenjuleg sviðsetning, maður á hlaupabretti og þessi hlaup munu væntanlega hafa einhver áhrif á áhorfendur. Þeir gætu jafnvel orðið þreyttir og móðir af því að horfa á þig, eða hvað? Hefurðu spáð í það?

„Ég veit það ekki, átta mig ekki alveg á því. Við höfum verið með einhver rennsli þar sem fólk úr leikhúsinu hefur verið að kíkja og svona og ég upplifi þetta þannig að fólk fyllist einhvers konar orku og kannski þakklæti yfir því hvað líkaminn okkar er geggjaður. Við gleymum honum svolítið, erum oft svolítið skorin af við hálsinn, höfuðið ræður rosalega miklu í lífi okkar en ég held að maður upplifi hvað þetta er miklu samtengdara.

Við erum búin að missa svolítið tenginguna, einhvern tíma vorum við veiðimenn sem hlupu um og þurftum að halda líkamanum við alla daga en núna komumst við upp með að fara ekkert allt of vel með hann. Ég held því, eins og ég sagði áðan, að þetta sé óður til líkamans á einhvern jákvæðan hátt. Ég held að það sé ekki eins erfitt og það hljómar að horfa á þetta.“ 

Krefst mikillar einbeitingar

–Nú tala leikarar oft um að einleikur sé mjög erfitt form og mun erfiðara en að leika á móti einhverjum. Þú færð engin viðbrögð eða hjálp frá annarri manneskju á sviðinu. Það er auðvitað erfitt fyrir í þessu verki en hefur það ekki líka áhrif á leikinn að þú ert alltaf á brettinu, ýmist að ganga eða hlaupa?

„Jú, maður þarf að hafa rosalega vel kveikt á öllum skilningarvitum því annars dett ég bara af brettinu,“ segir Gísli og hlær. „Ég er búinn að strippa þetta alveg niður og bara lappirnar sem halda mér uppi. Þannig að jú, ég þarf að hafa rosalega einbeitingu í gegnum þetta. Þetta er ekkert rosalega auðvelt, sko.“

–Svo má ekki gleyma því að verkið fjallar ekki bara um hlaup heldur miklu alvarlegra mál, sorgina. Er engin hætta á að hlaupin dragi athyglina að einhverju leyti frá alvöru umfjöllunarefnisins?

„Ég hugsa að það sé allt í lagi. Fyrir þá sem koma er þetta örugglega forvitnilegt bara, hvernig þér líður af því að horfa á þetta því ég átta mig ekki alveg á því sjálfur. Ég hugsa að það sé alls konar, ef þig langar að sjá þetta af því ég er að pínast á þessu bretti þá er það gott og blessað en svo ferðu á endanum út með einhverja upplifun sem er, held ég, sambland af ýmsu. Að því leyti held ég að þetta sé öðruvísi en margt annað,“ svarar Gísli. Hann telji að verkið muni spila á marga strengi sem séu ekki endilega fyrirsjáanlegir.

Sá skrítni á Ægisíðunni

Gísli er spurður að því hvort hann hafi lært textann á hlaupum og segist hann ekki hafa gert það. „Ég hef verið að labba um Ægisíðuna eins og skrítni gaurinn með handritið að þylja upp textann. Þetta hafa verið óteljandi göngutúrar með handritið í hendi að þylja upp. Ég hef verið að labba í kuldagallanum og séð fólk taka sveig framhjá mér,“ segir Gísli sposkur. Að því ferli loknu hafi þau Harpa farið að vinna sýninguna í rýminu, leikhúsinu. „Hún byrjar að leggja hana alla og gera og græja og þá læri ég sýninguna á brettinu. Þetta er bara eins og allt, krefst járnaga á meðan á þessu stendur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leyfðu öðrum að njóta kunnáttu þinnar en varastu allt oflæti, því fyrr en varir ert þú sá sem lærir af öðrum. Ekki hafa áhyggjur af því að þurfa að sanna þig.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leyfðu öðrum að njóta kunnáttu þinnar en varastu allt oflæti, því fyrr en varir ert þú sá sem lærir af öðrum. Ekki hafa áhyggjur af því að þurfa að sanna þig.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach