Hanna Stjärne, útvarpsstjóri sænska ríkissjónvarpsins SVT, hefur gagnrýnt ákvörðum Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU). EBU sendi frá sér tilkynningu þess efnis í gær að Rússland gæti tekið þátt í Eurovision þrátt fyrir innrás sína inn í Úkraínu.
Stjärne hvetur stjórn EBU til að endurskoða þessa ákvörðun. „Ég hef skilning á því að Eurovision eigi að vera ópólitískur vettvangur. En ástandið í Evrópu er grafalvarlegt nú þegar Rússland hefur ráðist inn í Úkraínu. Þetta fer yfir öll mörk. Við höfum sent ákall til EBU að skipta um skoðun og fylgjumst grannt með málinu,“ sagði Stjärne í frétt SVT um málið.
Ríkissjónvarp Úkraínu, UA:PBC, sendi ákall til EBU í gær þar sem sambandið var hvatt til þess að hindra þátttöku Rússa í keppninni. Í ákallinu sagði að rússneskar sjónvarpsstöðvar hafi miðlað pólitískum áróðri ríkisstjórnar Rússlands óritskoðað og tekið þátt í því að dreifa falsfréttum og misvísandi upplýsingum um ástandið í Úkraínu.
Alina Pash átti að keppa fyrir hönd Úkraínu í Eurovision en ákvað í síðustu viku að stíga til hliðar. Hefur hún verið gagnrýnd fyrir heimsókn sína til Krímskaga árið 2015, en Rússar gerðu innrás á Krímskaga árið 2014. Í stað hennar mun Kalush Orchestra keppa fyrir hönd Úkraínu með lagið Stefania.
Rússland hefur ekki enn tilkynnt um hvaða keppanda ríkið ætlar að senda í keppnina í ár.