Söngvarinn og stuðboltinn Hafsteinn Þór Guðjónsson, eða Haffi Haff, eins og hann er oftast kallaður, mun freista þess í annað sinn að verða fulltrúi Íslands á stóra sviði Eurovisionkeppninnar í ár. Haffi mun taka þátt í fyrri undanúrslitakeppni Söngvakeppninnar sem fram fer Gufuneshöllinni í kvöld en þar mun Haffi flytja lagið sitt Gía ásamt fríðu föruneyti.
Haffi Haff er landsmönnum vel kunnur en hann hefur komið víða við á sviði íslenskrar menningar síðustu ár. Vakti hann mikla athygli með þátttöku sinni í Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2008 þegar hann flutti eftirminnilega lagið The Wiggle Wiggle Song en lagið samdi Svala Björgvinsdóttir á sínum tíma. Haffi kom einnig fram í síðustu sjónvarpsþáttaröð af Allir geta dansað sem lauk göngu sinni 2020. Þar dansaði Haffi sig inn í hjörtu þjóðarinnar en framúrskarandi frammistaða hans í dansinum skilaði honum þátttöku í úrslitaþættinum.
Hver veit hvað gerist í kvöld þegar keppendur stíga á stokk og flytja atriðin sín. Haffi og hans félagar eru í það minnsta tilbúnir og fullir tilhlökkunar þrátt fyrir að óveður og önnur vandræði hafi sett strik í reikninginn á undirbúningstímabilinu.
„Við Marta erum búin að vera á mörgum æfingum „and it has been really good“ fyrir utan að það Hellisheiðin hefur verið lokuð í vikunni og svona en ein vinkona mín sem verður með í atriðinu býr í Hveragerði. Við erum búin að ná að æfa vel samt og þetta er „so much fun“ bara skemmtilegt,“ segir Haffi hress og kátur.
Hvað er Eurovision í þínum huga?
„Samglaðningur,“ segir Haffi um leið og spurningin barst, en það nýyrði er afar lýsandi fyrir Eurovision, það verður að viðurkennast. „Þetta er tækifæri fyrir alla til að taka þátt og fyrir alla til að láta ljós sitt skína. Þetta er tækifæri fyrir alla til að koma saman, mynda sér skoðanir og hafa gaman. Það skiptir eiginlega engu máli hvað gerist, hver vinnur eða hvað, þetta er bara góður „samglaðningur“ fyrir vini og fjölskyldur,“ segir hann.
„Ef við hugsum aðeins aftur á bak í tímann þá var þessi keppni búin til svo að Evrópa kæmi saman eftir óeirðir og stríð. Þetta var bara svona; „Ok hey, let's come back together in peace and do some music“ tími í Evrópu,“ segir Haffi og bætir við, „Já, og líka svona; „It's time to shake our booties,“ segir hann og skellihlær.
Hver er þín fyrsta Eurovisionminning?
„Það er þegar Selma fór út með lagið If I Had Your Love. Við áttum að sigra það ár, það var rosalega flott. Mér leið eins og þetta væri bara „best song ever“ og fýlaði líka þennan indverska stíl hjá Selmu og dönsurunum. Þarna var ég að upplifa Eurovision í fyrsta skipti,“ segir Haffi. „Ég sá þarna hversu mikil samkoma þetta var og hvað það var mikil gleði yfir öllum,“ segir hann en Selma Björnsdóttir tók þátt fyrir Íslands hönd árið 2005 og hafnaði í 16. sæti.
Hvert er þitt uppáhalds Eurovisionlag?
„Ég á mér mörg uppáhalds Eurovisionlög,“ segir Haffi. „Ég „actually love“ lagið hans Palla, Minn hinsti dans. Það er svo frumlegt og öðruvísi. Fólk hafði bara aldrei séð svona atriði áður. Þetta var svo flott, hann var svo flottur, „it was just perfect“ atriði,“ segir Haffi sem sótti ákveðinn innblástur til Páls Óskars Hjálmtýssonar þegar hann tók sjálfur í fyrsta sinn þátt í Söngvakeppninni með lagið The Wiggle Wiggle Song, sem Svala Björgvinsdóttir samdi.
„Euphoria er líka eitt af mínum uppáhaldslögum en „on top of everything“ er auðvitað heiðurinn færður Abba,“ segir Haffi. „Waterloo „I mean“ það er geggjað lag.“
Hvað er flottasta Eurovisiondress allra tíma?
„Þegar ég hugsa til baka var Abba í ótrúlega flottum dressum,“ segir Haffi. „En gæinn sem var að syngja óperu við „techno“ hann var í geggjuðu dressi líka,“ segir hann og á við flytjandann Cezar frá Rúmeníu sem tók þátt í Eurovision með laginu It's My Life árið 2013 og hafnaði í 13. sæti.
„Ástralía var samt með langflottasta dressið 2019,“ segir Haffi. „Hún var uppi á stöng og flaug bara um allt sviðið. Gjörsamlega geggjað. Skjávinnan þeirra var svo flott.“
Hvað er það við þitt lag sem sker sig úr frá öðrum lögum Söngvakeppninnar í ár?
„Ég vil bara segja það strax að við erum ekkert öðruvísi en aðrir sem eru að taka þátt. Það eru allir bara að „do their job and do it well“ og við erum líka að gera það. Okkar lag er um „inclusivity“ og „neutrality“ bara allir með og allir saman. Það væri skrýtið og lélegt af mér að segja að við séum eitthvað meira „this or that“. Þetta verður þriggja mínútna gleðisprengja hjá okkur en við erum ekkert meira hinir frábæru listamennirnir sem eru að taka þátt,“ segir Haffi hógvær og hvetjandi.
Allir vita að kjóllinn hennar Jóhönnu Guðrúnar var blár í Eurovision, en veistu hvernig kjóllinn hennar var á litinn í Söngvakeppninni?
„Var hann ekki hvítur?“ segir hann og er alveg með þetta á hreinu.
Hvaða Eurovisionlag myndir þú vera líklegur til að syngja hástöfum í Carpool Karaoke?
„Til hamingju Ísland með að ég fæddist hér. Ég er Sylvía Nótt og þið haldið með mér.... Töff, töff, töff!“