… að skugga skaltu aftur verða

Gary Brooker naut virðingar í bransanum og vann með mörgum …
Gary Brooker naut virðingar í bransanum og vann með mörgum goðsögnum. AFP

Gary Brooker, söngvari breska proggbandsins Procol Harum, lést á dögunum, 76 ára að aldri. Hans er fyrst og síðast minnst fyrir einn af erkismellum rokksögunnar, A Whiter Shade of Pale.

Eins og svo margt annað þá á ástin sér ártal. Og árstíð. Sumarið 1967. Á að giska eitt hundrað þúsund manns, mestmegnist ungir hippar, lögðu þá Haight-Ashbury-hverfið í San Francisco undir sig; nutu frjálsra ásta, böðuðu sig í blómum, neyttu hugbreytandi efna, andæfðu stríði og umfram allt – hlustuðu í andakt á framsækna tónlist. Aldan breiddi úr sér með hraði á vesturströnd Bandaríkjanna og á endanum alla leið til New York í austri og víðar um heim. Þetta var sumar sem enginn sem upplifði gleymdi eða mun nokkurn tíma gleyma og við hin erum enn að tala um – 55 árum síðar.

Margir voru kallaðir á sviði tónlistarinnar enda gróskan í sýrurokkinu mikil og mönnum lá meira en nokkru sinni á hjarta. Á engan er þó líklega hallað þó fullyrt sé að eitt lag standi upp úr – A Whiter Shade of Pale með breska proggbandinu Procol Harum. Það var sem talað inn í þennan tíðaranda og smaug á leifturhraða inn að beini. Allt í lagi, Bítlavinir, St. Pepper’s var plata þessa árs en A Whiter Shade of Pale lagið. Við ættum að geta sæst á það!

Smáskífan A Whiter Shade of Pale.
Smáskífan A Whiter Shade of Pale.


Langvinsælasta lag bandsins

Lagið kom út 12. maí 1967 og varð langvinsælasta lag Procol Harum og raunar eitt vinælasta lag sögunnar; A Whiter Shade of Pale hefur selst í yfir tíu milljónum eintaka á heimsvísu og verið endurgert af yfir eitt þúsund öðrum listamönnum, svo vitað sé. Árið 2004 hlaut lagið viðurkenningu sem mest spilaða lagið í bresku útvarpi næstu sjö áratugina á undan. Já, við erum að tala um réttnefnda rokkklassík.

Söngvarinn sem flutti lagið og samdi það ásamt öðrum, Gary Brooker, lést á dögunum, 76 ára að aldri eftir snerru við krabbamein. Kannski ekki þekktasta nafnið í bransanum enda var víða talað um „söngvara Procol Harum“ í andlátsfréttum en áhrif og arfleifð Brookers eru eigi að síður ótvíræð í rokksögunni. Þó ekki nema væri fyrir þennan risasmell sem hver kynslóðin af annarri tekur opnum örmum.

Blúsuð og seiðandi röddin og tregafullur og melankólískur söngstíll Brookers féllu eins og flís við rass að A Whiter Shade of Pale sem annars var borið uppi af áleitnu orgelstefi. Brooker sagði á sinni tíð að hann hefði samið lagið undir sterkum áhrifum frá meistara Jóhanni Sebastian Bach, nánar tiltekið túlkun Jacques Loussiers á Air sem finna má í svítu nr. 3 í D-dúr BWV 1069. Brooker hafði heyrt verkið leikið undir vindlaauglýsingu í sjónvarpinu og þótti mikið til þess koma þegar roskinn píanókennari kveikir sér í voldugum vindli og blæs reyknum tignarlega frá sér. „Þá varð allt eitursvalt,“ hefur breska blaðið The Guardian eftir honum.

Tapaði dómsmáli

Upphaflega kom fram að Brooker hefði samið lagið einn og óstuddur við texta Keiths Reids en hammond-orgelleikari Procol Harum, Matthew Fisher, höfðaði mál tæpum 40 árum síðar og krafðist þess að vera skráður meðhöfundur. Hann hafði erindi sem erfiði og var dæmd 40% hlutdeild í stefgjöldunum en þó aðeins frá og með árinu 2006.

A Whiter Shade of Pale kom sér makindalega fyrir á toppi ástralska, kanadíska og breska vinsældalistans, þar sem það sat í sex vikur, og náði hæst í fimmta sæti í Bandaríkjunum, þrátt fyrir lágmarkslobbíisma. Það var langstærsti smellur Procol Harum og eina topplag bandsins.

Brooker var hrærður yfir vinsældum lagsins. „Því fer víðsfjarri að ég hafi ímyndað mér þetta þegar ég samdi lagið og gerði þessa goðsagnakenndu upptöku með Procol Harum fyrir öllum þessum árum,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir honum. „Alla tónlistarmenn og söngvara dreymir um að teygja sig út til fjöldans, þannig að það hefur djúpstæða merkingu fyrir mig að lagið hafi náð þessum vinsældum og höfði enn þá sterkt til fólks í dag.“

Garys Brookers er minnst með ítarlegri hætti í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup