Úkraínu er nú spáð sigri í Eurovision söngvakeppninni sem fer fram í Tórínó á Ítalíu í maí. Landið hefur rokið upp í veðbönkum síðan Rússland hóf innrás sína.
Úkraína er eitt þeirra fárra landa sem nú þegar hefur valið keppanda sinn en það er Kalush Orchestra sem mun fara í keppnina og flytja lagið Stefania.
Rússland fær ekki að taka þátt í keppninni vegna innrásarinnar en frá því greindi Samband evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) á föstudag.
Ítalía, sem heldur keppnina í ár, er spáð öðru sæti í keppninni en Mahmod & Blanco munu keppa fyrir hönd Ítalíu með lagið Brividi. Svíþjóð er spáð þriðja sæti en landið hefur ekki enn valið sér keppanda. Ísland situr í 22. sæti eins og er.
Úkraína hefur átt góðu gengi að fagna í Eurovision síðan landið tók fyrst árið 2003. Landið hefur unnið keppnina tvisvar sinnum, árin 2004 og 2016. Tvisvar sinnum hefur Úkraína lent í öðru sæti og einu sinni í því þriðja. Á síðasta ári lenti sveitin Go_A í fimmta sæti, en sveitin er einmitt væntanleg til landsins á úrslitakvöld Söngvakeppni sjónvarpsins hinn 12. mars.