Vetur konungur hefur verið að leika landann ansi grátt síðustu vikur. Það eru langflestir komnir með leið á því að þurfa að hírast úti í kuldanum á morgnana og skafa bílinn. Flestum er farið að hrylla við veðurviðvörunum, snjóbyljum og slæmu árferði en örvæntið ekki því bingóþáttur Morgunblaðsins, mbl.is og K100 gæti hresst heppna bingóspilara við.
Næstkomandi fimmtudag verður sannkölluð sumarstemning í bingóinu þar sem vinningar kvöldsins verða veglegri en nokkru sinni fyrr.
„Við ætlum að gefa lægðunum langt nef og keyra á sumargleði í bingóinu á fimmtudaginn,“ segir bingóstjórinn Siggi Gunnars. „Við ætlum að ímynda okkur að það sé komið sumar í bingóþættinum og ætlum meðal annars að gefa flugsæti til Kanarí fyrir fjölskylduna og heitan pott,“ segir hann með sól í hjarta og bros á vör.
„Við fáum líka góða gesti í settið með Eurovisiontengingu enda er Eurovision vorboðinn ljúfi sem margir tengja við,“ uppljóstrar Siggi jafnframt en sérstakir gestir í bingóþættinum eru þátttakendur í Söngvakeppni Sjónvarpsins sem freista þess að verða fulltrúar Íslands í Eurovisionkeppninni í ár.
Auk Lay Z Spa heita pottsins frá Hagkaupum og flugsætanna til Kanaríeyja með Úrvali Útsýn verða fleiri tryllingslega flottir vinningar í boði fyrir heppna þátttakendur. Gjafabréf í verslunina Mathilda, Samsung Galaxy S21 snjallsími frá Tæknivörum, skartgripir frá Sign og fleira og fleira, þetta er aðeins brot af glæsilegum vinningum kvöldsins.
Tryggðu þér bingóspjald, skelltu þér í Havaí-skyrtuna, settu á þig sólgleraugun og vertu í sumarskapi með okkur næstkomandi fimmtudagskvöld á slaginu kl. 19.00 hér á mbl.is og á rás 9 hjá Sjónvarpi Símans. Bingóspjöld, leikreglur og útsendinguna sjálfa má nálgast með því að smella hér.