Var upptekin af tárum Ara Ólafs

Reykjavíkurdætur í allri sinni dýrð.
Reykjavíkurdætur í allri sinni dýrð. Ljósmynd/RÚV

Stúlknasveitin Reykjavíkurdætur hefur vakið mikla athygli víðs vegar um heim síðustu ár. Sveitin hefur verið virk og starfandi í tæplega níu ár en hana skipa átta fræknar og fjölhæfar tónlistarkonur.

Næstkomandi laugardagskvöld, 5. mars, stíga Reykjavíkurdætur á svið í Söngvakeppnishöllinni í Gufunesi og freista þess að komast áfram með lag sitt Tökum af stað. Ef þeim tekst það ætlunarverk munu þær keppa í úrslitaþætti Söngvakeppninnar þann 12. mars þar sem framlag Íslendinga í Eurovisionkeppninni verður valið. 

Lagið sömdu meðlimir Reykjavíkurdætra í sameiningu og textann einnig. Salka Valsdóttir, ein af átta Reykjavíkurdætrum og framleiðandi lags og atriðis, tók það að sér að sitja fyrir svörum fyrir hönd sveitarinnar. Segir hún mikla tilhlökkun vera í hópnum en þrátt fyrir að þær séu að taka þátt í fyrsta sinn í Söngvakeppninni þá er þetta langt því frá að vera þeirra fyrsta sviðsframkoma. 

„Við erum sjúklega stoltar af þessu atriði og þessu lagi okkar,“ segir Salka fyrir hönd hópsins. „Við getum ekki beðið eftir því að stíga á svið á laugardaginn. Það er algjör draumur að fá að takast á við svona skemmtilegt verkefni með bestu vinkonum sínum.“ 

Hvað er Eurovision í þínum/ykkar huga?

„Eurovision er eins og HM í þriggja mínútna sviðsframkomu þar sem „maximalismi“, dramatík og „campismi“ ráða ríkjum,“ segir Salka.

Hver er þín/ykkar fyrsta Eurovisionminning?

„Mín fyrsta Eurovision minning er frá árinu 2002. Ár hvert heldur fjölskyldan Eurovisionpartí og einu sinni veðjuðu allir 1000 krónum á vinningshafa keppninnar og þetta ár veðjaði ég á Möltu sem keppti með lagið 7th Wonder,“ útskýrir Salka. „Lagið var í öðru sæti sem ég var gjörsamlega brjáluð yfir sem barn, komin með dollaramerki í augun og orðin vongóð um að hreppa stóra vinninginn sem nam 30.000 krónur,“ segir hún og hlær. „Á endanum fór svo að amma mín laumaði að mér 1000 króna seðli eftir að úrslitin urðu ljós sem voru frábærar skaðabætur! Ég held að ég hafi eytt þúsund kallinum í nammi í Kolaportinu,“ segir Salka og var sátt með örlæti ömmu sinnar á þessum tímapunkti.

Hvert er þitt/ykkar uppáhalds Eurovisionlag?

„Mitt allra uppáhalds Eurovision lag er Everyway That I Can eftir Sertab Erener frá Tyrklandi. Sviðsetningin og flutningurinn á laginu ættu að vera tekin fyrir á sviðshöfundabraut í LHÍ,“ segir Salka og er mein alvara. 

Hvað er flottasta Eurovisondress allra tíma?

„Vá, það er úr mörgu að velja. Kjóllinn hennar Kate Miller árið 2019 var auðvitað epískur,“ segir Salka og á við kjólinn sem Ástralska söngkonan klæddist. „En annars er mitt uppáhalds Eurovisiontímabil í kringum aldamótin, klæðalega séð. Þá má sérstaklega minnast á árið 2004 sem innihélt atriði eins og In the Disco eftir Deen, Shake it eftir Sakis Rouvas og Wild Dancing með Ruslana.“

Hvað er það við þitt/ykkar lag sem sker sig úr frá öðrum lögum Söngvakeppninnar í ár?

„Lagið okkar sker sig auðvitað mikið úr þar sem það er að mestu rappað og lítið sungið. Við sem hljómsveit erum líka með mjög einstakt „sound“ sem einkennist mest af fjölda aðalflytjenda í hópnum og fjölbreytileika meðlima sveitarinnar,“ segir Salka sem fagnar fjölbreytileikanum bæði hjá sínum hópi og öðrum keppendum Söngvakeppninnar. 

Hvernig hélst þú/þið upp á Eurovision á síðasta ári?

„Á síðasta ári hélt ég lítið „Covid-vænt“ Europartí heima hjá kærastanum mínum þar sem við bjuggum til tacos, veðjuðum á sigurvegara og spiluðum drykkjuleiki,“ segir Salka.

„Ég hugsaði fyrst og fremst til meðlima Daða og Gagnamagnsins og hvað þetta hlyti að vera leiðinlegt fyrir þau. En svo voru þau bara svo æðisleg á upptökunni af æfingunni að maður var fljótur að hætta að svekkja sig á aðstæðum,“ segir Salka um svekkelsið sem gerði vart við sig þegar ljóst varð að Daði og Gagnamagnið myndu ekki stíga á svið sökum kórónuveirusmits í hópnum.

Manst þú/þið í hverju Ari Ólafsson var klæddur þegar hann keppti í Eurovision árið 2018?

„Var hann ekki hvítklæddur? Ég var svo upptekin af tárunum hans að ég tók ekki eftir klæðaburðinum.“

Hvaða Eurovisionlag myndir þú/þið vera líkleg/ar til að syngja hástöfum í Carpool Karaoke? „All Out Of Luck!!!“



mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup