Bandaríska rokkbandið Touch varð að gera hlé á leik sínum á fyrstu Monsters of Rock-hátíðinni í Donington-garði í Englandi sumarið 1980 fyrir þær sakir að einn bandingja gleypti geitung. Þetta staðfestir Jennie Halsall, fjölmiðlafulltrúi hátíðarinnar, í nýrri bók um breska málmsamfélagið á níunda áratugnum, Denim & Leather. „Það flaug geitungur upp í söngvara Touch meðan þeir voru á sviði og hann varð að hætta. Margir héldu að þetta væri bull en svo var ekki. Þetta var alveg galið.“
Söngvarinn sjálfur, Mark Mangold (gull af manni?), leiðréttir Halsall raunar í bókinni. „Þetta var Doug Howard, bassaleikarinn okkar. Hann var að fá sér sopa af bjór sem hann geymdi ofan á magnaranum og það var geitungur í honum.“
Sumsé ölvaður og árásargjarn.
Allan Jones, blaðamaður Melody Maker, sem var á svæðinu, staðfestir þetta. „Eftir að hafa liðið sálarkvalir gegnum prógrammið þeirra þá var ég að vona að þetta hefði verið söngvarinn.“
Blaðamenn alltaf jafnkaldhæðnir og Makermenn lítið í rokkinu!
Þrjú af stærstu nöfnunum í bresku bárujárni á þessum tíma voru líka á staðnum, Rainbow, Judas Priest og Saxon, auk Scorpions, kónganna í Þýskalandi, April Wine frá Kanada og bandaríska bandsins Riot.
Rob Halford, söngvari Priest, vakti mikla lukku þegar hann ók inn á sviðið á Harley Davidson-mótorhjólinu sínu. Eini staðurinn sem hann má það enda hefur Halford aldrei tekið mótorhjólapróf. Sjálfur var hann í skýjunum með giggið, ef marka má bókina. „Þetta var mergjaður dagur. Fyrsta málmhátíðin sem setti af stað bylgju, ekki bara í Bretlandi, heldur um alla Evrópu.“
Menn upplifðu það ekki síður í mannhafinu en á sviðinu. „Maður var úti á engi með fjölda fólks sem ann því sama og maður sjálfur,“ segir hinn kunni málmskýrandi Dante Bonutto í bókinni. „Það var í senn valdeflandi og skilgreinandi. Risastór vitnisburður um að rokk væri ekki bara samsafn banda – heldur fjöldahreyfing og alþjóðlegt afl.“
Ungur gestur, Andy Copping, upplifði þetta með sama hætti: „Sérhver maður þarna var ég. Fjölritað eintak af mér. Fyrir pilt úr fásinninu í Lincoln var þetta ótrúleg upplifun.“
Leyfum plötusnúðnum og tónleikahaldaranum Neal Kay svo að eiga lokaorðin: „Þarna höfðu tónleikahaldarar áttað sig á því að rokkelskir væru aldrei að fara að sætta sig við blandaðar hátíðir. Ekki í þessu landi. Ekki að ræða það. Þannig erum við bara. Rokk er lífsstíll. Ekki bara tónlist.“
Nánar er fjallað um fyrstu Monsters of Rock-hátíðina í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.